Páll Axel Vilbergsson hefur endurnýjað samning sinn við Skallagrím í Domino´s deild karla. Slíkt hið sama hefur Hvanneyringurinn Davíð Guðmundsson einnig gert sem í dag fagnar 20 ára afmæli sínu. Skallagrimur.is greinir frá.
Á heimasíðu Borgnesinga segir:
Stórskyttan Páll Axel Vilbergsson hefur endurnýjað samning sinn við úrvalsdeildarlið Skallagríms. Páll Axel hefur verið burðarásinn í liði Skallagrímsmanna síðustu tvö leiktímabil í Dominos deild karla, en á síðasta tímabili skoraði hann 22,2 stig að meðaltali í leik og tók 7,2 fráköst. Páll, sem fagnaði 36 ára afmæli sínu fyrr á árinu, er með reynslumestu leikmönnum úrvalsdeildarinnar og er sem dæmi einn sá stigahæsti frá upphafi. Áframhaldandi vera Páls Axels í herbúðum Borgnesinga er því gríðarlegur styrkur fyrir liðið. Hann hefur hampað Íslands- og bikarmeistaratitlunum oftar en einu sinni, í öll skiptin með liði Grindvíkinga sem hann hefur lengstum leikið með á ferlinum, enda borinn og barnfæddur Grindvíkingur. Þá á Páll Axel að baki um 100 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.
Skallagrímur hefur tryggt sér liðskrafta hins unga og efnilega Davíðs Guðmundssonar áfram. Samningur þess efnis var undirritaður á dögunum. Davíð, sem verður 20 ára 10. september, í dag, er uppalinn Skallagrímsmaður en hann er borinn og barnfæddur Hvanneyringur. Hann leikur stöðu framherja, er 186 cm á hæð, og skoraði sem slíkur 3,2 stig að meðaltali í leik á síðasta tímabili. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Davíð verið í meistaraflokki félagsins frá tímabilinu 2009-2010 þegar hann lék sinn fyrsta leik með félaginu. Áður lék hann með yngri flokkum Skallagríms þar sem hann var lykilleikmaður í sínum árgangi. Davíð er með afbrigðum góð þriggja stiga skytta og mun vera hans í liðinu á komandi keppnistímabili vafalaust treysta skotfimi stórskotaliðssveitar þess.