spot_img
HomeFréttirLengjub. kvk: Snæfell sigraði Grindavík

Lengjub. kvk: Snæfell sigraði Grindavík

Snæfell og Grindavík mættust í Lengjubikar kvenna í gærkvöldi í Röstinni. Æsispennandi og jafn leikur framan af í fyrri hálfleik þar sem liðin skiptust á forystunni ítrekað. Snæfellsstúlkum tókst þó að rífa sig lausar rétt fyrir leikhlé með 8-1 rispu sem færði þeim 9 stiga forystu, 41-32 í veganesti inn í seinni hálfleik. 
 
Snæfellsstúlkum tókst að halda Grindavíkurstúlkum frá sér í þriðja hluta en Grindavík setti í fluggírinn í fjórða og saxaði jafnt og þétt á forystu gestanna. Þegar 10 sekúndur voru eftir af leiknum sökkti reynsluboltinn Pálína Gunnlaugsdóttir tveimur vítum til að jafna leikinn. 
 
Eftir leikhlé hjá Snæfelli með 10 sekúndur eftir af leiknum fékk Hildur Sigurðardóttir tvenn tækifæri til að klára leikinn fyrir Snæfell en brenndi af í báðum.
 
Í framlengingunni reyndust Snæfellsstúlkur mun sterkari og Grindavík hitti illa í lok framlengingar. Naumur sigur Snæfells staðreynd en ljóst að þetta Grindavíkurlið verður erfitt viðureignar ef þær sleppa við meiðsli í vetur.
 
Kristen McCarthy leiddi Snæfell með 30 stig, 12 fráköst og 5 stolna bolta. Hildur Sigurðardóttir bætti við 14 stigum og 11 fráköstum. Gunnhildur Gunnarsdóttir átti einnig frábæran leik þrátt fyrir að skora lítið en hún reif niður 13 fráköst og gaf 8 stoðsendingar, að viðbættum 3 vörðum skotum.
 
Hjá Grindavík var Rachel Tocca atkvæðamest með 27 stig og heil 22 fráköst. María Ben bætti við 18 stigum en hitti illa í leiknum. Pálína setti 11 stig, tók 6 fráköst, gaf 7 stoðsendingar og stal 4 boltum.
 
Mynd:  Pálína í leik með Grindavík á síðustu leiktíð. (Axel)
Fréttir
- Auglýsing -