Það var ungt og sprækt lið Keflavíkur sem kom sá og sigraði Snæfell í Lengjubikarkeppni kvenna í Hólminum, lokatölur 61-76. Snæfell byrjaði 5-0 og Keflavík tók strax leikhlé. Þar var mannskapurinn hristur saman og eftir varð hnífjafn leikur. Oft og tíðum voru liðin að leika losaralegan bolta og eru greinilega að stilla sig og leik sinn um þessar mundir.
Staðan eftir fyrsta hluta var eins og við var búist 22-22 en Ingunn Embla var að sýna að hún ætlar að koma sterk á parketið aftur hjá Keflavík en hún ásamt Emelíu Gunnarsdóttur voru að gera gott mót í fyrsta hluta. Keflavík komst yfir 25-26 í öðrum hluta en Snæfellsstúlkur hafa séð betri nýtingu í skotum og voru langt undir pari vallarins en voru stigi yfir í hálfleik 35-34. Hjá Snæfelli var Kristen McCarthy með 15 stig og Hildur Sig 8. Í liði Keflavíkur var Ingunn Embla með 8 stig og Sara Rún komin með 7 stig og 8 fráköst.
Liðin skiptust á að skora og títtnefnd Ingunn Embla fékk að skjóta frítt og þáði það með þökkum og setti fjóra þrista í smettið á Snæfelli sem voru þungar á fótum í vörninni. Allt var í járnum og staðn 53-54 fyrir Keflavík en Hildur Sig bjargaði þremur stigum á sekúndu eftir innkast með einhverjum ótrúlegum tilþrifum við lokaflaut þriðja hluta.
Snæfellsstúlkur fóru að koðna niður fyrir baráttuglöðum Keflavíkurstúlkum uppúr miðjum fjórða hluta en Sara Rún átti það „móment“ skuldlaust og rúllaði upp Snæfelli aftur og aftur í sóknum sínum. Sara tók af skarið fyrir Keflavík þegar staðan var 60-61 þeim í vil og unnu þær hlutann 8-22. Sara fór mikinn og setti vel niður af vítalínunni einnig. Snæfell skoraði 1 stig á fjórum mínútum gegn 15 stigum Keflavíkur sem stálu boltanum ítrekað og auðveldlega af Snæfelli sem voru töluvert frá sínu besta. Þetta segir allt um lokamínúturnar en Keflavík fagnaði sigri í lokin 61-76 og unnu vel fyrir því þetta kvöldið.
Stighæastar í Snæfelli voru Kristen McCarthy 24/9 frák. Hildur Sig 13/6 frák/4 stoðs. María Björns 9 stig. Gunnhildur Gunnars 6/13 frák/5 stolnir. Í liðið Keflavíkur var Sara Rún í sérflokki með 25/15 frák/5 stoðs. Ingunn Embla 17 stig. Telma Lind 10 stig og hin unga Emelía Gunnarsdóttir 9 stig.
Umfjöllun/ Símon B Hjaltalín
Myndir/ Sumarliði Ásgeirsson