spot_img
HomeFréttirTindastóll í úrslit

Tindastóll í úrslit

Tindastólsmenn eru komnir í úrslit Lengjubikarsins eftir sigur á Fjölni í Ásgarði. Dalhúsamenn áttu fínar rispur en Stólarnir voru við stýrið í kvöld og höfðu að lokum sanngjarnan 92-73 sigur. Stólarnir mæta KR eða Haukum í úrslitum á morgun en viðureign liðanna hefst innan skamms.
 
 
Tindastólsmenn með Darrel Lewis í broddi fylkingar voru beittari í fyrri hálfleik og leiddu 43-36 í leikhléi. Fjölnismenn létu ekki stinga sig af en Tindastólsmenn áttu að vera með betra forskot, Grafarvogspiltar hittu illa, Arnþór 0-5 í þristum og Sims illa brýndur þennan fyrri hálfleikinn. Í ofanálag var Ólafur Torfason ekki með gulum þar sem hann er staddur erlendis.
 
Lewis hinn silkimjúki var að gera Fjölnisvörninni erfitt fyrir og Pétur Rúnar Birgisson átti nokkur sterk gegnumbrot sem enduðu með körfum. Forvitnilegt verður að sjá þennan fyrirliða U18 ára landsliðsins koma upp með boltann hjá Tindastól í vetur og er mikil ábyrgð sett í hans hendur. Sem byrjunarliðsleikstjórnandi í úrvalsdeild er nánast engin reynsla að baki hjá Pétri en stutt er í reynslubankann úti á væng þar sem hann finnur Darrel Lewis.
 
Stólarnir opnuðu síðari hálfleik með 14-5 rispu og eini með hjartslátt í Fjölni var Davíð Ingi Bustion. Vörn Skagfirðinga var flott framan af en það hljóp sjálfstraust í Dalhúsapilta þegar Arnþór Freyr Guðmundsson marði það að leka niður þrist í sinni sjöundu tilraun og minnka muninn í 44-60. Þetta tendraði fínan kafla hjá Fjölni og náðu þeir að minnka muninn í 11 stig fyrir fjórða og síðasta leiklhuta, staðan 68-57 fyrir Tindastól.
 
Fjórði leikhluti var gangsettur rétt eins og hinir þrír, Stólarnir slitu sig frá en svo kom Fjölnisrispa en það var saga leiksins að gulu rispurnar komu seint og voru of litlar.
 
Davíð Ingi Bustion bar af í liði Fjölnis á báðum endum vallarins, gerði 20 stig í kvöld og tók 6 fráköst og var í raun sá eini sem nennti að slást aðeins við Stólana. Alexander Þór Hafþórsson stóð sig vel með 15 stig og 5 stoðsendingar en það vantaði meira bit í lykilmenn á borð við Arnþór og Daron. Garðar Sveinbjörnsson átti sína ljósu punkta en Fjölnisliðið í heild kom illa af bekknum í hvert einasta sinn sem þeir settust niður.
 
Helgi Freyr Margeirsson minnti á að fallbyssan hefur ekkert kólnað, gamli seigur með 4/7 í þristum. Dempsey kláraði með 25 stig í kvöld og 14 fráköst en lungi stiga hans kom á seinni metrum leiksins. Mestan skaða hlaut Fjölnir úr höndum Lewis sem gerði 24 stig og var með 9 fráköst. Pétur Rúnar og Helgi Rafn lögðu einnig sitt til liðsins, Pétur með 10 stig og 7 fráköst og Helgi með 7 stig og 8 fráköst.
 
Fréttir
- Auglýsing -