Íslandsmeistarar KR og nýliðar Tindastóls munu leika til Lengjubikarúrslita á morgun í Ásgarði en KR var rétt í þessu að leggja Hauka að velli í síðari undanúrslitaviðureign kvöldsins. Lokatölur 93-83 KR í vil. Þrælöflugur fyrri hálfleikur hjá KR en frammistaða Hauka til fyrirmyndar, gáfust ekki upp og létu KR hafa vel fyrir hlutunum.
Kanalausir Haukamenn létu stinga sig snemma af í Ásgarði. Í „transition“ flettu KR-ingar ofan af ansi mörgum veikleikum Hafnfirðinga og með þá Mike Craion og Brynjar Þór beitta leiddu KR-ingar 27-17 eftir fysta leikhluta og staðan svo 58-42 í hálfleik. Hörður Helgi og „Harden“-skeggið áttu sterka innkomu af KR tréverkinu þar sem Hörður galdraði fram átta snögg stig og sex þeirra úr þristum.
Kristinn Marinósson og Kári Jónsson áttu rispur fyrir Hauka og Helgi Björn líka en varnarleikur Hafnfirðinga átti bágt gegn þaulskipulögðum KR-ingum. Emil Barja var einnig byrjaður að hlaða í þrennu í fyrri hálfleik með 9 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar en ef Haukar áttu að eiga einhvern möguleika í kvöld var það vörnin sem varð að standa þéttari vakt því risinn úr Vesturbæ hafði gert næstum 60 stig í fyrri hálfleik og það í lága drifinu.
Augljós batamerki voru á Haukavörninni í síðari hálfleik og það veit alltaf á gott enda tókst Hafnfirðingum hægt og bítandi að saxa á forskot röndóttra og gott ef það kom ekki við kauninn í KR. Menn verða að nenna þessu í fullar 40! Alger kúvending á leiknum og Haukar unnu þriðja leikhluta 24-15 þar sem þeir Emil Barja og Kári Jónsson komu rosalega vel út sem bakvarðapar. Áhorfendum leiddist það svo ekkert þegar Hjálmar Stefánsson varði í tvígang skot frá Craion. Staðan 73-66 fyrir KR fyrir fjórða og síðasta.
Íslandsmeistarar KR opnuðu fjórða leikhluta með 9-0 dembu og voru öllu líkari sjálfum sér fyrir vikið. Þegar um fimm mínútur lifðu leiks var staðan orðin 71-87 fyrir KR og benti allt til þess að þeir myndu sigla lygnan sjó það sem eftir lifði leiks. Haukar eru einfaldlega ólseigir, minnkuðu muninn í 79-89 þegar þrjár mínútur voru eftir en KR slepptu ekki tökunum á stýrinu og kláruðu leikinn 93-83.
Brynjar Þór gerði 21 stig og gaf 3 stoðsendingar í liði KR, Craion með 19 og 5 og Finnur Atli bætti við 15 stigum og 8 fráköstum. Hörður Helgi kom inn með fína rispu en baráttan í Haukum í kvöld dældaði yfirvegun Vesturbæinga og voru þeir hrikalega öflugir þeir Emil Barja (18/12/7) og Kári Jónsson (17 og 4 stoðs). Helgi Björn barðist vel með 15 stig og 5 fráköst og að viðbættum atvinnumanni verða Haukarnir ekkert lamb að leika sér við.
Tölfræði leiksins