Kevin Durant ásamt fleiri sterkum nöfnum á borð við LeBron James og Carmelo Anthony var hvergi að finna á nýafstöðnu Heimsmeistaramóti á Spáni. Ekki að þeirra hefði þurft við því Bandaríkjamenn rúlluðu mótinu upp engu að síður. Durant sagði nýverið í viðtali Marc Stein hjá ESPN að hann vildi vera með á Ólympíuleikunum. Viðtalið verður birt von bráðar en það var tekið við Durant á 26 ára afmæli hans.
Durant dró sig út úr Team USA skömmu fyrir HM og bar fyrir sig þreytu. „Ég vildi bara njóta sumarsins,“ sagði Durant og segir Coach K (Mike Krzyzewski þjálfara bandaríska landsliðsins) hafa sýnt þessari ákvöðrun sinni skilning.
Sumarið 2016 verður Durant með lausan samning, þetta sama sumar hyggur hann á þátttöku með bandaríska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Ríó. Hann veit sem er að stóru klúbbarnir eins og Knicks, Lakers og fleiri munu koma og banka á dyrnar. „Aðalmarkmið mitt er að verða eins góður leikmaður og hægt er og verða góður leiðtogi fyrir Oklahoma.“
Við sjáum hvað setur sumarið 2016 en þegar hákarlarnir banka með fulla vasa af seðlum er dyrunum sjaldnast skellt í andlitið á þeim.