Landsliðsmaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson og liðsfélagar í MBC hefja leik á morgun í þýsku úrvalsdeildinni og það verður engin lognmolla enda heimsækja þeir Þýskalandsmeistara Bayern Munchen.
Die Wölfe eða Úlfarnir innihalda kunnugleg andlit frá því Hörður var síðast á mála hjá klúbbnum en þarna trónir enn Djordje Pantelic sem m.a. var á mála hjá Stjörnunni á sínum tíma. ÍR-ingurinn Kelly Biedler er þó ekki lengur í röðum Úlfanna.
„Ég er svona að koma til baka eftir smá leiðindi en verð með á morgun. Þetta byrjar almennilega á útivelli á móti núverandi meisturum. Okkar markmið eru að halda okkur uppi, allt annað er plús. Þetta eru því svipuð markmið og við höfðum seinast þegar ég var hérna svo þetta verður bara krefjandi og skemmtilegt,“ sagði Hörður Axel í snörpu samtali við Karfan.is í dag.
Mynd/ [email protected] – Hörður Axel í leik með MBC á þarsíðustu leiktíð.