Miðherjinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson er á förum frá Grindavík en hann samdi í dag við sænska úrvalsdeildarliðið Solna Vikings. Vísir.is greindi frá þessu fyrr í dag.
Sigurður gerði eins árs samning við Solna en þar hafa þeir Logi Gunnarsson og Helgi Már Magnússon áður verið í leikmannahópi Víkinganna sem leika í Solnahallen þar sem Norðurlandamót yngri landsliða hafa farið fram síðasta áratuginn eða svo.
Á Vísir.is segir:
„Þeir voru búnir að skoða mig í sumar, en síðan kom þetta upp í gærkvöldi og ég fékk samning í hendurnar í morgun,“ sagði Sigurður í samtali við Vísi. Hann segir að hann stefnt að þessu í nokkrum tíma.
„Þetta er það sem flestir vilja, að fara eitthvert annað og sjá hvort maður getur eitthvað. Ég hafði komandi landsliðsár líka í huga. Mig langaði að taka næsta skref og það hjálpar mér að undirbúa mig fyrir Evrópumótið á næsta ári,“ sagði Sigurður sem heldur utan á morgun eða hinn, en Solna leikur sinn fyrsta leik í sænsku deildinni á sunnudaginn gegn Uppsala Basket.