LIU Brooklyn Blackbirds hafa birt leikmannalista sinn fyrir komandi leiktíð. Eins og flestum ætti að vera ljóst eigum við Íslendingar tvo leikmenn í röðum LIU en það eru Martin Hermannsson (KR) og Elvar Már Friðriksson (Njarðvík).
“Nýtt númer, nýir tímar” skrifaði Martin á Instagram síðu sína í dag og birti mynd af sér með númerið #24 undir. Þetta er útpælt númer samkvæmt heimildum Karfan.is en 24 er að sjálfsögðu summan af 9 og 15. Elvar hins vegar heldur sínu gamla númeri, eða 10 sem hann lék með hjá Njarðvík.
LIU hefur leik í upphitunarmótinu NIT 19. nóvember nk. gegn St. John’s háskólanum í New York en sá leikur verður í beinni á ESPN3. 27. nóvember mæta þeir Stony Brook háskólanum í Mekka körfuboltans, sjálfum Madison Square Garden. Sá leikur verður einnig sendur út beint en þá á ESPNU.