Þorleifur Ólafsson stefnir að því að snúa aftur til leiks með Grindvíkingum í mars á næsta ári. Þorleifur sleit krossbönd í úrslitakeppninni síðustu þegar Grindavík og Þór Þorlákshöfn áttust við í fyrstu umferð.
Þorleifur fór í aðgerð vegna meiðslanna þann 20. júní síðastliðinn og segir hlutina hafa gengið vel síðan þá. „Þetta er hægt ferli,“ sagði Þorleifur og viðurkenndi að bekkjarsetan hefði örugglega skilið flísar eftir í sitjandanum.
„Ég stefni á að byrja í mars, ég má byrja að æfa miklu fyrr en það eru æfingar í léttari kantinum en þær eru þó smá kröftugar æfingarnar sem ég geri núna. Fyrstu þrír mánuðurnir eftir svona aðgerð eru bara hundleiðinlegir,“ sagði Þorleifur en flestir hafa að mati Þorleifs hreinlega gleymt því að hann sé meiddur.
„Fólk man bara eftir þessari fyrstu umferð gegn Þór og að ég hafi „snappað“ á dómarana eftir leik,“ sagði Þorleifur en upp úr sauð eftir leik Þórs og Grindavíkur í Þorlákshöfn þar sem Þorleifur á hækjum lét dæluna ganga yfir dómara leiksins og fékk refsingu samkvæmt því.
Með stefnuna setta á endurkomu í mars ætti Þorleifur að vera í búning í og við úrslitakeppnina. „Já, ég get heldur aldrei neitt fyrr en hún byrjar.“
Þorleifur verður því með Grindvíkingum á tréverkinu í kvöld þegar Skallagrímur kemur í heimsókn í Röstina en leikur liðanna hefst kl. 19:15.