ÍR-ingar virkuðu mun hressari en oft áður í sókn og vörn í upphafi leiks þó KR-ingar hafi skorað 30 stig í fyrsta hluta. KR-ingar hittu ákaflega illa í upphafi en fóru svo að sturta niður skotum út um allt rétt fyrir lok fjórðungsins. 8/12 fyrir innan þriggja stiga línuna og 3/7 í þristum þegar í heildina er litið. KR skoraði 1,37 stig per sókn í fyrsta hluta og það er erfitt að eiga við Vesturbæingana í þessum ham.
Skilvirknin datt niður hjá gestunum næstu 10 mínúturnar. Leikhraðinn rauk upp í öðrum fjórðungi eða alla leið í 96,3 sóknir (uppreiknað í 40 mínútur). KR-ingar töpuðu boltanum ítrekað eða alls 6 sinnum í öðrum og hittu ekkert fyrir utan. Ráku þó eitt og eitt hraðaupphlaup í bakið á ÍR þegar þeir gleymdu að koma sér aftur í vörn. Staðan var 47-49 í hálfleik, KR í vil.
Breiðhyltingar komu æfir út úr klefanum eftir leikhlé. Spiluðu fína vörn á KR sem voru enn ískaldir á þriggja stiga línunni. Hittu 1/9 í þriðja hluta og skoruðu alls 0,82 stig per sókn. Heimamenn spiluðu vel í sókninni, hittu úr skotunum sínum og unnu frákastabaráttuna 11-6.
Uppgjöf einkenndi hins vegar sóknarleik ÍR í fjórða leikhluta. Craion varði þrjú skot sem ÍR-ingar nánast réttu honum, urðu svo lafhræddir við hann og þorðu ekki inn í teiginn. ÍR-ingar skoruðu ekki stig í fjórða hluta fyrr en 3:30 voru eftir af leiknum, en tókst þó að setja niður 17 stig á þeim stutta tíma sem var þá eftir. Þrátt fyrir að hitta mjög vel tókst KR-ingum að tapa boltanum 7 sinnum í fjórða hluta. Leikhraðinn rauk aftur upp og nú í 99,6 sóknir (uppreiknað). Síðasti leikhluti endaði 17-27 fyrir KR.
Leiknum lauk með sigri KR-inga 86-93 í leik sem ÍR-ingar hreinlega gáfu frá sér.
KR-ingar spiluðu án Pavel Ermolinskij sem er enn ekki klár í slaginn eftir að hafa tognað illa á ökkla á æfingu fyrir fyrstu umferð Dominosdeildarinnar. Sóknarleikur KR-ingar virtist hauslaus á köflum og að það hafi vantað stjórnandann sem Pavel er.
ÍR-ingar geta tekið margt gott heim frá þessum leik þegar í heildina er litið. Liðið sem spáð var næstneðsta sæti deildarinnar og þá falli bar enga virðingu fyrir liðinu sem spáð var sigri í deildinni. Mættu þeim af fullri hörku í varnarleiknum og stóðu sig vel í fráköstunum. Sóknarleikurinn var þó flatur á köflum þar sem leikmenn tóku upp á því að drippla boltanum mikið og á meðan gekk boltinn ekkert.
Hjá KR var enn og aftur Mike Craion frábær með 33 stig, 15 fráköst og 3 varin skot, en Bandaríkjamaðurinn raðað upp gnægð af stigum í fyrsta leikhluta og virtist sem ekkert gæt stöðvað hann. Brynjar Þór bætti við 16 stigum og 3 stolnum boltum. Helgi Már setti 12 stig og 8 fráköst. Hörður Helgi átti mjög góðan leik fyrir KR en hann skoraði 12 stig á 16 mínútum og tók 5 fráköst. Hann leiddi einnig KR-inga í +/- gildum með samtals +20.
Matthías Orri var frábær fyrir ÍR-inga. Réðst áhræddur á körfuna af mikilli ákefð en hélt boltanum oft aðeins of mikið. Hann setti niður 29 stig, tók 4 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Chris Gradnigo var algerlega freðinn fyrstu mínúturnar en reif sig upp þegar líða fór á leikinn. Hann endaði með 18 stig og 12 fráköst. Það er deginum ljósara að enn og aftur hafa ÍR-ingar tapað í kanalottóinu því liðið þarf mun öflugri karakter og leiðtoga sem dregur liðið áfram. Sveinbjörn Claessen var mjög góður með 15 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar.
Finnur Freyr Stefánsson og Bjarni Magnússon, þjálfarar liðanna kíktu í spjall á KarfanTV í myndbandinum hér að neðan.
Myndasafn úr leiknum (Axel Finnur)
Mynd: Matthías Orri Sigurðarson var frábær fyrir heimamenn. (Axel Finnur)