Mitteldeutscher voru að sigra Phoenix Hagen rétt í þessu 80-79 og hafa nú unnið 4 af 5 leikjum sínum í þýsku deildinni. Úlfarnir eru nú í fjórða sæti í deildinni en eina liðið ásamt Phoenix sem hefur spilað 5 leiki og því líklegt að staðan breytist eitthvað eftir að umferðin hefur klárast.
Hörður Axel byrjaði inn á fyrir Úlfana en spilaði samt aðeins 7 mínútur í leiknum. Á þeim tíma tókst honum að ná af aðeins einu skoti og tapa boltanum fjórum sinnum. Í samtali við Karfan.is eftir leikinn sagðist Hörður bara hafa verið lélegur í leiknum og ekki átt skilið að spila meira. Auk þess sem hinn leikstjórnandi liðsins var að spila mjög vel.
Sigur er hins vegar sigur og árangur liðsins skiptir öllu.
“Það verða alla vega ekki fleiri 7 mínútna leikir,” sagði Hörður að lokum.