Dustin Salisbery setti 37 stig fyrir Njarðvíkinga í kvöld þegar grænir skunduðu á braut með tvö stig úr Dalhúsum í Domino´s deild karla. Fyrir leik kvöldsins var Michael Craion leikmaður KR sá sem flest stig hafði gert í einum deildarleik á tímabilinu eða 33.
Salisbery hækkaði markið í kvöld er hann setti niður 37 stig. Salisbery á því stigahæsta leikinn til þessa, Ingvi Rafn Ingvarsson leikmaður Tindastóls á stoðsendingametið með 11 stykki gegn Þór Þorlákshöfn og þá er Haukamaðurinn Alex Francis efstur á lista yfir fráköstin með 20 slík í leiknum gegn Grindavík. William Henry Nelson leikmaður Snæfells á svo hæsta framlagið í einum leik til þessa en það voru heil 50 framlagsstig þegar Nelson gerði 30 stig, tók 19 fráköst, gaf 4 stoðsendingar og stal 2 boltum í leik Snæfells og Fjölnis.
Einn leikur er eftir af annarri umferð en þá eigast við Keflavík og Stjarnan í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport næsta mánudagskvöld.
Mynd/ [email protected]