Fjölnismenn tóku á móti Njarðvíkingum í Dalhúsum í kvöld. Nýliðar Fjölnis sóttu ekki gull í greipar Hólmara í fyrstu umferð – ekki frekar en Njarðvíkingar gegn ógnarsterkum KR-ingum. Bæði lið því vafalaust sólgin í sigur og sín fyrstu stig í vetur.
Njarðvíkingar buðu upp á nýbreytni í númeravali þar sem leikmenn spígsporuðu um í treyjum merktum númerunum 3, 24, 33 og 43. Fjölnismenn hræddust það hins vegar ekkert og byrjuðu leikinn talsvert betur. Sims var drjúgur á póstinum og skoraði að vild í byrjun, vörn heimamanna góð sem og skotval gestanna vont. Arnþór aðstoðaði Sims við stigaskorun og smellti tveimur flottum þristum yfir Njarðvíkurvörnina, staðan 16-6 og allt í blóma hjá gulum. Dustin Salesbery var allt í öllu hjá Njarðvík, að vísu eftir dapra byrjun, og hélt þeim inn í leiknum í fyrsta leikhluta. Þrátt fyrir allt var munurinn aðeins 4 stig, 24-20 eftir leikhlutann.
Dustin Salesbery hélt uppteknum hætti í öðrum leikhluta. Greinilega frábær leikmaður sem fær að öllum líkindum ekki frímerki á rassinn á næstunni. Það sem meira var skánaði leikur gestanna að öllu leyti, vörnin varð þéttari og stigin komu eftir gott flæði en ekki einstaklingsframtak. Fjölnismenn héldu þó frumkvæðinu framan af leikhlutanum og var Sims fremstur þeirra sóknarlega. Njarðvíkingar áttu svo ágætan sprett undir lokin og fóru með naumt forskot, 46-49, til búningsklefa.
Segja má að þriðji leikhluti hafi verið alger andstæða fyrsta leikhluta. Gestirnir mættu mjög ákveðnir til leiks og nú voru það heimamenn sem fundu ekki flæði og svör við grimmum varnarleik gestanna. Njarðvíkingar náðu skjótt 10 stiga forystu og leikhlé Hjalta við það tilefni hafði ekki mikil áhrif. Fjölnismenn létu bresta á með svæðisvörn en gáfust fljótt upp á því. Heimamenn náðu þó að halda í við gestina og munurinn jókst ekki að ráði fyrr en í lok leikhlutans. Þá töpuðu Fjölnismenn boltanum mjög illa og Salesbery skoraði flautukörfu að harðfylgi og fékk víti að auki. Munurinn skyndilega umtalsverður, 63-80, og á brattann að sækja hjá Fjölnismönnum.
Fjölnismenn gerðu sitt besta til að naga sig nær gestunum. Óli Torfa setti góð stig í byrjun fjórða leikhluta og minnkaði muninn í 69-83. Tommi Holton lýsti því yfir að þetta væri enn vel gerlegt en því miður fyrir hann og heimamenn slökkti Logi fljótt í vonarneistanum með tveimur snöggum þristum. Þá var staðan orðin 71-93, 6 mínútur eftir og Njarðvíkursigur svo gott sem í höfn. Munurinn hélst í kringum 20 stigin út leikinn og eftir tvær frekar lítt spennandi ruslamínútur lauk leik með 86-110 sigri Njarðvíkur.
Salesbery og Sims voru yfirburðarmenn í sínum liðum. Sims lauk lauk með 31 stig og 8 fráköst. Salesbery setti heil 37 stig og hirti einnig 8 fráköst. Arnþór var heitur fyrir heimamenn fyrir utan línuna með 6/8 í þristum og endaði með 22 stig. Logi kom svo næstur Salesbery hjá gestunum og lauk leik með 22 stig.
Viðbrögð þjálfara liðanna eftir leik:
Friðrik I. Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkur:
Ykkar leikur var ansi stirður til að byrja með og allt flæði vantaði í fyrsta leikhluta. Svo lagaðist það mikið í öðrum leikhluta og þið keyrðuð eiginlega bara yfir þá í þeim þriðja.
Já það er í raun alveg hárrétt. Við vorum ansi staðir og það vantaði einhvers konar flæði. Menn voru kannski pínu ragir við suma hluti og ekki alveg með á nótunum. Sem betur fer tókst okkur að laga það eftir því sem leið á leikinn. Sama má segja um varnarleikinn, hann var ekki góður mestallan fyrri hálfleikinn en hann var hins vegar góður í þriðja leikhluta. Þá náðum við að koma leiknum í mjög erfiða stöðu fyrir Fjölni.
Ertu sáttur með liðsbraginn hjá ykkur?
Jájá, það voru ágætir punktar í leik liðsins. Ég vil þó ekki segja að ég sé fullkomlega ánægður með leik liðsins. Við erum meðvitaðir um það að við erum á ákveðinni leið og við vitum að við getum orðið betri og ætlum okkur að verða betri. Það var eitt og annað betra í dag en í síðasta leik.
Friðrik hrósaði svo Fjölnismönnum fyrir fínan leik á köflum: Mér fannst Fjölnisliðið vera að spila vel, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þeir voru betri en í síðasta leik á móti Snæfelli. Við þurftum að hafa fyrir hlutunum og þurftum að spila vel hérna á útivelli í seinni hálfleik til að landa sigri og ég er ánægður með hvernig það tókst til. Við getum þó gert enn betur.
Það er svolítið talað um að KR-ingarnir séu langbestir og nánast óþarfi að spila mótið. Þið réðuð ekki við þá í DHL-höllinni í fyrstu umferð en er hægt að sigra þá?
Jájá! Ég held að það sé vel hægt að vinna þá. Það er þó alveg rétt að í augnablikinu þá eru KR-ingar með besta liðið. Ég held nú að það séu þó einhver lið sem eiga eftir að bæta sína getu þegar líður á og læra inn á KR. En KR-ingar eru vissulega með mjög gott lið og er liðið sem önnur lið miða sig svolítið við vilji það enda á toppnum í restina.
Hjalti Vilhjálmsson, þjálfari Fjölnis:
Þetta byrjaði mjög vel hjá ykkur, liðið leit mjög vel út, hörku vörn og gott flæði en svo snerist þetta í öðrum og enn frekar í þriðja leikhluta. Hvað gerðist?
Mér fannst svolítið að í öðrum leikhluta fengu þeir alltof mikið að keyra inn í miðjuna og þeir voru í raun bara í veislu. Við vorum að ströggla svolítið sóknarlega en við vorum samt ekki nema nokkrum stigum undir í hálfleik. Í þriðja leikhluta fannst mér við síðan bara ekki fá leyfi til að vinna í rauninni. Það var bara þannig að við fengum dæmdan á okkur ásetning og þá snerist allt saman og þeir fengu alla dóma með sér. Ég verð að viðurkenna að mér fannst það svolítið þannig.
Já, en þú sérð kannski líka eitthvað í leik liðsins sem mætti e.t.v. bæta?
Jájá, við verðum bara að vera fljótari á fótunum og loka miðjunni betur. Sóknarlega þyrftum við að fá meira flæði á boltann. Við vorum með flæði í fyrri hálfleik en svo fórum við að drippla alltof mikið og þeir voru svolítið grimmir á okkur og voru að berja okkur svolítið. Þeir fengu að gera það í rauninni á meðan mér fannst við ekki fá að gera það hinum megin. Það virðist ekki vera sama hver á í hlut.
Hver er stefnan hjá Fjölni fyrir tímabilið?
Það er klárlega að halda okkur uppi fyrir það fyrsta. Við stefnum svo á að skríða inn í úrslitakeppni. Það er markmiðið.
Umfjöllun: Kári Viðarsson
Mynd: [email protected]