spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaValur lagði Tindastól örugglega í Origo Höllinni

Valur lagði Tindastól örugglega í Origo Höllinni

Valur lagði Tindastól í kvöld í 12. umferð Subway deildar karla, 96-71. Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum með 14 í 4.-6. sæti deildarinnar.

Liðin höfðu í eitt skipti áður mæst í deildinni á tímabilinu, þann 8. október hafði Tindastóll nokkuð öruggan sigur á Val á Sauðárkróki, 76-62

Gangur leiks

Heimamenn í Val byrjuðu leik kvöldsins betur. Náðu að vera skrefinu á undan á upphafsmínútunum. Tindastóll þó aldrei langt undan, en þegar fyrsti fjórðungur var á enda munaði stigi á liðunum, 23-22. Undir lok fyrri hálfleiksins missa Stólarnir heimamenn eilítið frá sér. Munurinn 8 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 47-39.

Pablo Bertone atkvæðamestur heimamanna í fyrri hálfleiknum með 13 stig á meðan að Javon Bess dró vagninn fyrir Stólana með 14 stigum.

Með gífurlega sterkum varnarleik ná heimamenn í Val enn frekar að ganga á lagið í upphafi seinni hálfleiksins. Sigla hægt og örugglega mest 18 stigum framúr Stólunum í þeim þriðja, en eru 16 stigum yfir þegar fjórðungurinn er á enda, 70-54. Í fjórða leikhlutanum reyna Stólarnir hvað þeir geta til þess að vinna niður forskotið, en allt kemur fyrir ekki. Komast 13 stigum næst þeim um miðjan fjórðunginn. Valur sigrar leikinn að lokum með 25 stigum, 96-71.

Tölfræðin lýgur ekki

Valur gjörsamlega slátraði baráttunni í teignum sóknarlega í leiknum, settu 42 stig á móti aðeins 18 skoruðum hjá Tindastól.

Atkvæðamestir

Kristófer Acox og Pablo Bertone voru atkvæðamestir í liði Vals í leiknum, Pablo með 32 stig, 5 stoðsendingar og Kristófer með 24 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar.

Fyrir Tindastól var Javon Bess atkvæðamestur með 22 stig, 5 fráköst og Pétur Rúnar Birgisson bætti við 5 stigum og 7 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst 20. janúar, Tindastóll tekur á móti KR og Valur heimsækir Grindavík.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -