Valur sigraði Breiðablik nokkuð sannfærandi í kvöld með 71 stigi gegn 63. Hávaxið byrjunarlið Vals tók forystuna og komst í 13-4. Valsstúlkur fengu mjög góð færi undir körfunni, en hittu illa. Joanna Harden sá um stigaskorunina í fyrri hálfleik og hitti vel en Breiðablik kom til baka og minnkaði muninn í þrjú stig í byrjun annars leikhluta. Á þessum tíma var Berglind erfið fyrrum félögum sínum í Val og skoraði tvær þriggja stiga körfur á stuttum tíma. Valur tók leikhlé og vörnin skánaði. Um tíma virtist Breiðabliksliðið gleyma Harden og munurinn var kominn í 11 stig í hálfleik. Þjálfararnir voru duglegir að skipta leikmönnum inn á allan fyrri hálfleikinn. Væntanlega mun það koma liðunum til góða þegar líður á mótið.
Breiðablik byrjaði síðari hálfleikinn í svæðisvörn og það truflaði sóknarleik Valsliðsins talsvert í byrjun. Munurinn fór aftur niður í þrjú stig, en Valsliðið svaraði og var með 10 stiga forystu 57-47 í lok þriðja leikhluta. Í lokaleikhlutanum tókst Val að halda muninum og landa sigri. Ungt lið Breiðabliks er efnilegt, en skorti reynslu þegar mest á reið.
Bestar í liði Breiðabliks voru Arielle Wideman, Jóhanna Björk Sveinsdóttir og Unnur Lára Ásgeirsdóttir. Hjá Val var Joanna Harden frábær í fyrri hálfleik, en dalaði mikið í þeim síðari. Guðbjörg Sverrisdóttir var líka mjög örugg og sama má segja um Kristrúnu Sigurjónsdóttur, sem lék samt óvenjulega fáar mínútur. Athygli vakti Sóllilja Bjarnadóttir sem kom af bekknum og skilaði góðum leik.
Í báðum liðum eru ungir og efnilegir leikmenn sem eru að fá hlutverk í liðunum í efstu deild í fyrsta sinn. Dómarar leiksins voru reynsluboltarnir Leifur Garðarsson og Sigmundur Már Herbertsson og þeir voru frábærir.
Umfjöllun og myndir/ Torfi Magnússon