spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaVestri sótti erfiðan sigur í Hellinum — ÍR komið í fallsætið

Vestri sótti erfiðan sigur í Hellinum — ÍR komið í fallsætið

ÍR tók á móti Vestra í TM-hellinum í kvöld í mikilvægum leik fyrir bæði liðin. ÍR-ingar voru í 10. sæti deildarinnar fyrir leik og Vestri í 11. sætinu. Gestirnir gátu skotið sér upp fyrir heimamenn með sigri og komið sér þannig úr fallsætinu, allavega í bili.

Leikurinn var sveiflukenndur og vannst að lokum með minnsta mun, 77-78, Vestra í vil.

Gangur leiksins

Það gætti strax hita í leiknum, enda þurftu dómarar að ræða saman strax á fimmtu mínútu leiksins hvort að henda þyrfti í óíþróttamannslega villu á hinn franska Jordan Semple. Ástæðan var hve harkalega hann tók á miðherja Vestra, Nemanja Knezevic. Nem, eins og hinn svartfellski miðherji er gjarnan kallaður, þurfti mikið að hafa fyrir stöðunni sinni undir körfunni, enda tóku framherjar Breiðhyltinga fast á honum. Hann fékk lítinn frið og gat ekki skorað nema eina körfu í fyrri hálfleik.

Sóknartilburðir Ísfirðinga voru ekki upp á marga fiska framan af svo ÍR-ingar náðu aðeins að sigla fram úr Vestra í fyrsta leikhluta. Þar skipti Igor Maric miklu máli fyrir heimamenn, enda hitti hann úr 6 skotum af 8 fyrstu 20 mínútur leiksins (3/5 í þriggja stiga skotum). Fyrstu tólf mínútur leiksins voru langflestir ÍR-ingar að leika við hvurn sinn fingur og mjög erfitt fyrir Vestra að verjast gegn þeim.

Í stöðunni 33-16 með tæpar átta mínútur eftir af öðrum leikhluta tók Vestri sig saman í andlitinu og hófu að saxa á forskot ÍR. Alejandro Rubiera og Julio Calver fóru að hitta betur úr skotunum sínum og vörn gestanna fór loks að halda. Á næstu sex mínútum gátu heimamenn aðeins skorað 4 stig gegn 19 stigum hjá ísfirska liðinu!

Breiðhyltingar náðu aðeins að stilla sig af á lokamínútum annars leikhlutans á sama tíma og Vestramenn misstu aðeins einbeitinguna í vörninni. Nokkrar körfur hjá Igor og Collin Pryor sáu til þess að staðan í hálfleik var aðeins bærilegri fyrir heimamenn, 43-38.

Seinni hálfleikurinn hófst á því að liðin voru að skiptast aðeins á körfum en síðan tóku gestirnir að vestan að yfirtaka ÍR-inga. Ken-Jah Bosley setti stóran þrist á fjórðu mínútu þriðja leikhluta sem kom Vestra yfir í fyrsta sinn síðan mjög snemma í leiknum. Þá tók Friðrik Ingi, þjálfari ÍR, leikhlé til að messa aðeins yfir sínum leikmönnum.

Liðin halda áfram að skiptast á körfum en Vestramenn leiddu með 5 stigum þegar þriðja leikhluta lauk. Ísfirðingar höfðu unnið leikhlutann með tíu stigum en til þess þurfti byrjunarliðið að spila næstum því allar tíu mínúturnar. Pétur Már, þjálfari Vestra, skipti aðeins einu sinni í þriðja leikhluta. Það var þegar ein mínúta var eftir og þá aðeins framlagslægsta leikmanninum, Marko Jurica.

Nú fengu Alejandro og Nemanja hjá Vestra aðeins að hvíla sig og Pétur Már varð að vona að varamennirnir Hugi Hallgrímsson og Arnaldur Grímsson gætu haldið muninum óbreyttum meðan nokkrir úr byrjunarliðinu köstuðu mæðunni. Þeim tókst það og þegar byrjunarliðið kom aftur saman á þriðju mínútu lokafjórðungsins höfðu gestirnir enn 5 stiga forystu. Þá tók við heldur skorlítill en spennandi lokasprettur.

ÍR-ingar reyndu að minnka muninn en alltaf gátu Vestramenn svarað körfu með körfu. Þegar 2 mínútur lifðu leiks setti Julio Calver þrist til að koma muninum í 6 stig fyrir gestina, 72-78. Þá hrökk allt í baklás hjá Ísfirðingum og virtust þeir ætla að láta undan álaginu sem fylgdi því að sigla sigrinum heim. Tapaðir boltar og slæmar ákvarðanir í sóknum Vestra hleypti ÍR aftur inn í leikinn.

Sigvaldi Eggertsson, sem hafði fram að þessu skorað aðeins 5 stig í fyrstu þremur leikhlutunum, fann hringinn í fjórða leikhluta og setti þrjá þrista. Sá stærsti kom á seinustu mínútunni til að koma stöðunni í 77-78. Þvílíkur spennuleikur!

Vestri gat ekki skorað í næstu sókn og ÍR var því í dauðafæri að ná forystunni með körfu. Það gerðist hins vegar ekki og ÍR neyddist til að brjóta á Alejandro til að senda hann á vítalínuna. Hann nýtti það ekki betur en svo að hann klikkaði á báðum vítunum og vegna þess að hann hitti ekki hringinn í seinna klikkinu gátu ÍR-ingar tekið leikhlé og freistað þess að vinna með rúma sekúndu eftir af leiknum! Það varð þó ekki og heimamenn náðu ekki einu sinni skoti á körfuna. Vestri vann því leikinn 77-78, naumasti munur.

Lykillinn

Atvinnumenn Vestra, og þá sérstaklega Julio Calver, Ken-Jah Bosley og Alejandro Rubiera, voru mjög mikilvægir fyrir þennan sigur hjá liðinu að vestan. Þeir spiluðu allir meira en 35 mínútur í leiknum og það mæddi mikið á þeim öllum.

Mikilvægasta frammistaðan var þó líklega hjá Alejandro Rubiera sem átti sinn besta leik á tímabilinu. Alejandro skoraði 18 stig og gaf 5 stoðsendingar og hitti úr 67% allra skota sinna utan af velli, sem verður að teljast erfitt fyrir bakvörð. Ken-Jah var líka mjög skilvirkur með 25 stig (62% skotnýting) en framlagshæstur var Julio með 23 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar.

Hjá ÍR var Igor Maric bestur, en hann skoraði 19 stig, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

Tölfræðin lýgur ekki

Í naumum leikjum sem þessum er lítið sem má út af bregða og minnstu mistök geta skilið á milli sigurs og taps. Sárast hlýtur því að vera hjá ÍR-ingum að þeir nýttu ekki nema 4 víti af 10 í leiknum.

ÍR hefur skotið ca. 80% frá vítalínunni hingað til og voru fyrir þennan leik með bestu vítanýtinguna í deildinni. Í þessum mikilvæga leik þá hefði liðið ekki þurft nema að hitta úr 60% vítaskotanna til að vinna leikinn. Til samanburðar þá hitti lið Vestra aðeins úr helmingi vítaskota sinna (4/8) og vann samt.

Kjarninn

Vestramenn gerðu það sem þurfti til að koma sér upp úr fallsætinu í kvöld. Atvinnumenn liðsins spiluðu allir meira en þeir gera vanalega og voru eflaust úrvinda eftir sigurinn. Liðið ætlar sér augljóslega ekki að leggjast niður og falla strax aftur niður í 1. deild. Nokkrir sigrar í viðbót gætu dugað til að bjarga úrvalsdeildarsætinu þeirra.

ÍR hefur verið að reyna rísa upp úr botnslagnum eftir að þjálfaraskipti urðu í Breiðholtinu í lok október á seinasta ári. Þetta var leikur sem ÍR-ingar hefðu þurft að vinna til að skilja sig aðeins frá botnliðunum en þeir náðu ekki að gera það. Nú verður liðið úr Breiðholtinu að hysja upp um sig og vinna nokkra leiki til að koma sér úr hættu.

Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -