Fjölnir kíkti á Ásvelli í kvöld í von um að sækja sinn fyrsta sigur í deildinni þangað. Gestgjafarnir, Haukar voru taplausir í fyrsta sæti með KR fyrir þriðju umferðina og ljóst að Fjölnir myndi eiga við ramman reip að draga.
Fjölnismenn mættu sprækir til leiks, börðust um alla lausa bolta og spiluðu fína vörn. Fjölnir réði hins vegar mjög illa við Haukana inni í teignum en þeir skoruðu nánast einvörðungu í teignum í fyrri hálfleik. Haukar skoruðu alls 40 stig í teignum.
Fjölnir sótti ítrekað stig með hraðaupphlaupum en Haukar voru í vandræðum með að stöðva þau á tímabili.
Bæði lið hittu skelfilega fyrir utan þriggja stiga línuna í fyrri hálfleik, Haukar 3/13 og Fjölnir 2/12. Fyrri hálfleik lauk með fátæklegum 37 stigum Hauka gegn 34 frá Fjölni og ekkert annað hægt að segja en að bæði lið hafi verið slök í sóknarleik sínum, en samanlögð sóknarnýting beggja liða var 37,6%.
Skytturnar úr Hafnarfirði hrukku hins vegar í gang í seinni hálfleik og hófu að raða bombunum fyrir utan, 5/9 í 3. hluta og alls 10/29. Kári Jónsson þar fremstur í broddi fylkingar með 3/5 fyrir utan.
Haukar spiluðu frábæran sóknarleik í þriðja hluta með hágæða skilvirkni eða 1,37 stig per sókn og sóknarnýtingu upp á 56%. Fjölnir hins vegar réði ekkert við þessa leyftursókn heimamanna og missti þá í 17 stiga mun þegar sá 3. leið undir lok.
Fjölnir fær þó hrós dagsins fyrir að gefa ekki eina einustu tommu í lokafjórðungnum þar sem þeir gerðu enn eina tilraunina til að ná leiknum aftur til sín. Boltinn gekk vel í sókninni þar til opið skot fannst sem rataði ofan í, oftast um leið og skotklukkan flautaði. Fjölnir gerði sig hins vegar seka um að gefa frá sér 10 sóknarfráköst í hendur Haukanna og munar um minna þegar lið eru að reyna að vinna upp mun sem þennan.
Síðbúin inngjöf Fjölnis dugði hins vegar ekki og leiknum lauk með nokkuð öruggum en alls ekki sannfærandi sigri Hauka 87-76.
Alex Francis leiddi Haukana með 23 stig, 15 fráköst og 5 stolna bolta. Kári Jónsson var öflugur í seinni hálfleik og endaði með 17 stig og 5/8 nýtingu. Kristinn Marinósson var með 14 stig og 6 fráköst. Emil Barja var óeigingjarn að vanda og dældi út 9 stoðsendingum. Hann reif einnig niður 11 fráköst en var ekki að finna körfuna svo auðveldlega og skoraði aðeins 6 stig.
Daron Sims var stigahæstur Fjölnismann með 18 stig og 13 fráköst. Ólafur Torfason og Arnþór Guðmundsson bættu við 14 stigum hvor.