spot_img
HomeFréttirÖruggur Valssigur að Hlíðarenda

Öruggur Valssigur að Hlíðarenda

Valsmenn urðu í kvöld fyrstir til að leggja Hött í 1. deild karla. Valsmenn voru sterkari í leiknum frá upphafi og náðu tökum á Hattarmönnum strax í seinni hluta fyrsta leikhluta en þá skora Valsmenn tíu stig gegn fimm stigum Hattarmanna og breyttu stöðunni úr 13-8 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður í 23-13 í lok leikhlutans. Annar leikhluti spilaðist svipað, liðin skiptast á að skora fyrstu fimm mínútur annars leikhluta og staðan 30-22 þegar Valsmenn gefa aftur í og skora 13 stig gegn 7 á seinni helmingi annars leikhluta, staðan í hálfleik 43-29.
 
 
Hjá Valsmönnum var Illugi Auðunsson að spila feiknavel og var kominn með tvöfalda tvennu í hálfleik 12 stig og 12 fráköst (þ.a. 4 sóknarfráköst)! Danero Thomas er með 9 stig og Bjarni Geir Gunnarsson með 8 stig.
Hjá Hetti er Tobin Carberry með ríflega helming stiga liðsins eða 17 stig og Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson með 6 stig og 5 fráköst (4 sóknar). Valsliðið leiðir frákastabaráttuna 23-17 og þá er athyglisvert að Valsliðið á 10 stoðsendingar í fyrri hálfleik en Höttur 2!
 
Seinni hálfleikur byrjaði vel hjá Hattarmönnum og þeir skoruðu fyrstu 87 stig hálfleiksins og breyta stöðunni í 43-36 áður en Valsmenn ná að svara fyrir sig og eftir þrist frá Hetti er staðan 47-39 og 6 mínútur eftir af háfleiknum. Þá taka Valsmenn heldur betur við sér og smella í þrjá þrista og staðan 56-39 þegar 4 mínútur eru eftir og Höttur tekur leikhlé. Viðar Örn Hafsteinsson skellir þá í tvo dýra þrista og minnkar muninn aftur í 16 stig eftir þriðja leikhluta 61-45. Hattarmenn tapa þriðja leikhluta aðeins með tveimur stigum 18-16.

Fjórði leikhluti byrjar með látum hjá Valsmönnum sem auka muninn í 21 stig eftir tvær mínútur og ljóst að á brattan verður að sækja hjá Hetti. Þegar leikhlutinn er hálfnaður er staðan 72-51 fyrir Val og ekkert sem bendir til þess að leikurinn verði eitthvað spennandi. Hattarmenn fara þá að spila vörnina af meiri ákefði og leikur Vals verður losaralegri, tapaðir boltar og léleg skot leiða til þess að Hattarmenn minnka muninn í 10 stig – 74-64 – þegar 1.20 er eftir. Hattarmenn brjóta af sér í vörninni og freista þess að Valsmenn klikki á vítaskotum en eftir að Valsmenn ná sóknarfrákasti eftir bónusvíti brjóta Hattarmenn á leikmanni Vals og fá einnig dæmda óíþróttamannslega villu þannig að Valsmenn fá fjögur víti og boltann. Vítin fóru ofaní og Valsmenn vinna öruggan 14 stiga sigur 78-64. Atkvæðamestir í annars jöfnu Valsliði voru Danero Thomas með 19 stig og 6 fráköst, Illugi Auðunsson með 14 stig og 16 fráköst, Bjarni Ger Gunnarsson með 15 stig. Hjá Hetti var Tobin Carberry lang atvæðamestut með 27 stig, 6 stig og 4 stoðsendingar, Viðar Örn Hafsteinsson 11 stig og 4 fráköst, Hreinn Gunnar Birgisson kom sterkur í seinni hálfleikinn og endaði með 11 stig og 8 fráköst og Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson 8 stig og 9 fráköst.

 
 
Dómarar leiksins Sigurbaldur Frímannsson og Davíð Tómas Tómasson dæmdu leikinn óaðfinnanlega.
 
Vodafone höllin að Hlíðarenda / Hannes Birgir Hjálmarsson
  
Fréttir
- Auglýsing -