Það væsir ekki um Jón Arnór Stefánsson leikmann Unicaja Malaga þessa dagana. Liðinu gengur vel, ósigrað í öllum keppnum og Jón nokkuð sáttur. “Helsti munurinn hér og á Zaragoza er sá að maður er við ströndina og umkringdur af golfvöllum.” sagði Jón Arnór og glotti við. ”Malaga er auðvitað stærri klúbbur en Zaragoza og aðstaðan hér er öll til fyrirmyndar. Það er auðvitað frábært að vera spila aftur í Euroleague, þar er maður að keppa við þá bestu í Evrópu og þannig vil ég hafa það. Dagskráin er ansi þétt hjá okkur og stutt á milli leikja en það er ekki langt liðið á tímabilið ennþá svo maður er ekki farinn að finna mikið til í skrokknum þannig.”
Með nýju liði kemur nýr þjálfari og nýjar áskoranir en hvernig gengur að aðlagast nýju umhverfi?
“Já þjálfarinn vill æfa stíft þrátt fyrir þétta leikja dagskrá en ég vona að það róist aðeins á næstunni. Okkur hefur gengið vel í byrjun og ég er rosalega ánægður hérna. Mér líður í raun eins og ég hafi spilað hérna í mörg ár og var fljótur að komast inní hlutina. Liðið er sterkt og við eigum bara eftir að bæta okkur þegar líður á mótið.”
Jose Luis Abós gamli þjálfari Jóns hjá Zaragoza lést fyrir skömmu eftir baráttur við krabbamein en þeir höfðu verið saman hjá Zaragoza í þrjú ár. “Það var rosalega sorglegt og auðvitað mikið sjokk fyrir mig að heyra af dauða Jose Luis. Hann greindist með krabbamein í maga í sumar og eftir aðgerð kom í ljós að hann ætti ekki mikið eftir. Það er í raun ótrúlegt hversu hratt þetta tók enda og ég finn rosalega til með konu hans og börnum sem hann skilur eftir. Hann var ekki besti þjálfari í heimi en mjög góður maður og alltaf stutt í bros og hlátur hjá honum. Þegar fólk deyr svona ungt og snögglega þá fær það mann tilað hugsa og pæla virkilega í því hvað skiptir mann mestu máli í lífinu. Maður tekur lífinu alltof oft sem sjálfsögðum hlut í stað þess að virða og njóta líðandi stundar og þakka fyrir allt það góða sem maður á.” sagði Jón Arnór og kvaddi okkur svo með “Að öðru leyti er ég bara léttur og á leið í golf.”