spot_img
HomeFréttirNBA spá: kyrrahafsriðill

NBA spá: kyrrahafsriðill

 Karfan.is leitaði til sérfræðinga Facebook spjallhópsins NBA Spjallið – Where Amazing Happens og bað meðlimi hópsins að spá fyrir um komandi NBA tímabil.
 
 
Nú er komið að kyrrahafsriðlinum, en þar eru það Los Angeles Clippers og Golden State Warriors sem munu komast áfram í úrslitakeppnina, en Phoenix Suns, Sacramento Kings og Los Angeles Lakers sitja eftir.
 
 
LA Clippers: frábærlega vel mannað lið Clippers er líklegt til góðra verka í vetur. Pressan hleðst samt á Chris Paul, enda hefur þessi frábæri miðjubakvörður aldrei náð neinum árangri sem tala mætti um í úrslitakeppninni, en margir telja það ljóð á ferli hans. Áhugaverðasta viðbótin við liðið er hinn trausti Spencer Hawes, sem kemur eflaust til með að nýtast þeim vel sóknarlega í lok jafnra leikja.
Leikmenn inn: Jared Cunningham (SAC), Chris Douglas-Roberts (CHA), Jordan Farmar (LAL), Spencer Hawes (CLE), Joe Ingles (R), Ekpe Udoh (MIL), C.J. Wilcox (R).
Leikmenn út: Darren Collison (SAC), Jared Dudley (MIL), Danny Granger (MIA), Willie Green (ORL), Ryan Hollins (SAC).
 
Golden State Warriors: hinn dagfarsprúði Steve Kerr hefur sinn þjálfaraferil með Golden State. Það er áhugavert teymi þar, skytturnar Kerr, Curry og Thompson og ef liðið spilar eitthvað í líkingu við karakter þjálfarans má búast við þriggja stiga regni frá Warriors í vetur.
 
Phoenix Suns: það átti enginn von á neinu frá Suns síðasta vetur, en þeir komu svo sannarlega á óvart og rétt misstu af sæti í úrslitakeppninni. Þetta ótrúlega ævintýri þeirra síðasta vetur virðist þó ætla að festa þá á versta stað NBA deildarinnar, að vera liðið sem er að berjast um að komast inn í úrslitakeppnina, og ef það tekst detta þeir út í fyrstu umferð, en ef það tekst ekki þá fá þeir ekki nægilega góðan valrétt til að bæta liðið.
Leikmenn inn: Earl Barron, Zoran Dragic (R), Tyler Ennis (R), Isaiah Thomas (SAC), Anthony Tolliver (CHA), T.J. Warren (R).
Leikmenn út: Leandro Barbosa (GSW), Dionte Christmas, Channing Frye (ORL), Emeka Okafor, Ish Smith (HOU).
 
Sacramento Kings: lítið gengur hjá Kings að taka skrefið fram á við, en margir hafa tengt það við hversu illa hefur gengið hjá DeMarcus Cousins að þroskast sem leikmaður og einstaklingur innan vallar. Enginn efast um gríðarlega hæfileika hans, en erfiðlega hefur gengið að stjórna skapsmunum innan vallar. Þeir bjartsýnustu treysta þó á að reynslan með HM liði USA hjálpi honum í rétta átt.
Leikmenn inn: Omri Casspi (HOU), Darren Collison (LAC), Ryan Hollins (LAC), Trey Johnson, Eric Moreland (R), Ramon Sessions (MIL), Nik Stauskas (R).
Leikmenn út: Quincy Acy (NYK), Jared Cunningham (LAC), Aaron Gray (DET), Travis Outlaw (NYK), Willie Reed, Jason Terry (HOU), Isaiah Thomas (PHX).
 
LA Lakers: þrátt fyrir endurkomu Kobe Bryant, þá eru sérfræðingarnir ekki að farast úr bjartsýni fyrir hönd Lakers. Liðið stefnir og í að verða algjör andstaða Golden State, þar sem þjálfari liðsins, Byron Scott hefur þráast við að leyfa leikmönnum sínum að huga að þriggja stiga skotum, sem gerir sóknarleik liðsins einhæfari en vant er. Það skal þó enginn afskrifa Mömbuna!
Leikmenn inn: Carlos Boozer (CHI), Jordan Clarkson (R), Ed Davis (MEM), Wayne Ellington (DAL), Jeremy Lin (HOU), Ronnie Price (ORL), Julius Randle (R).
Leikmenn út: Kent Bazemore (ATL), MarShon Brooks, Jordan Farmar (LAC), Pau Gasol (CHI), Chris Kaman (POR), Kendall Marshall (MIL), Jodie Meeks (DET).
Fréttir
- Auglýsing -