Eini leikur dagsins var í Dalhúsum er Fjölnir tók á móti Álftanesi í fyrstu deild karla. Fyrir leikinn voru Álftnesingar í öðru sæti deildarinnar og Fjölnismenn í því fimmta. Liðin áttust við fyrr í haust þar sem Álftnesingar fóru með öruggan sigur af hólmi.
Gangur leiks
Leikurinn var hnífjafn í byrjun, en gestirnir voru í erfiðleikum að stöðva hraða og grimmd Fjölnismanna. Spurning er hvort að Álftnesingar hafi verið of kærulausir fyrstu mínúturnar. Sinisa Bilic, nýjasti leikmaður gestanna kom inn á snemma í leiknum og stóð sig með mikilli prýði. Mirza Sarajlija kveikti sömuleiðis í Fjölnismönnum með góðri hittni fyrir utan þriggja stiga línuna. Áhugavert var að gestirnir voru aðeins með tvær liðsvillur þegar leikhlutinn tók enda, en heimamenn með átta. Staðan í lok leikhlutans, 25-24 fyrir heimamönnum.
Bæði lið byrjuðu 2. leikhluta af miklum krafti og skiptust á körfum. Eins og í 1. leikhluta áttu Álftnesingar erfitt með að halda í við hraðann í heimamönnum. Sinisa Bilic hélt hins vegar áfram að refsa Fjölnismönnum í teignum og skoraði nánast að vild. Um miðjan leikhluta náðu heimamenn áhlaupi og gestirnir höfðu engin svör. Þriggja stiga nýting Álftnesinga var vægast sagt skelfileg er liðin héldu til búningsklefana, en þeir hittu úr einum þrist í fimmtán tilraunum. Staðan í hálfleik, 54-45 heimamönnum í vil.
Í seinni hálfleik sigldu heimamenn fram úr gestunum með skipulögðum sóknarleik. Álftnesingar spiluðu hryllilegan varnarleik og Fjölnismenn skoruðu að vild. Daníel Ágúst og Dwayne Ross Foreman Jr. mynduðu gott tvíeyki og skoruðu megnið af stigum sinna manna. Gestirnir töpuðu mörgum boltum og Fjölnismenn náðu enn og aftur áhlaupi. Óskar Þór Þorsteinsson þjálfari Álftnesinga tók þá leikhlé. Gestirnir náðu aðeins að rétta úr kútnum, en voru samt ekki í góðri stöðu. Staða í lok 3. fjórðungs, 85-66.
Þegar komið var í 4. leikhluta var útlit var fyrir að Álftnesingar höfðu misst leikinn frá sér, en þeir börðust með kjafti og klóm. Gestirnir skoruðu þrettán stig í röð og spiluðu loks ágætis varnarleik. Allt í einu gjörbreyttist leikurinn og minnkuðu Álftnesingar muninn í fimm stig. Fjölnismenn gerðu samt sem áður vel að halda forskotinu undir lokin. Þegar staðan var 110-105 hafði Sinisa Bilic möguleika á að minnka muninn í 3 stig, en hann klikkaði á galopnu sniðskoti og var leikurinn þá endanlega búinn. Daníel Ágúst Halldórsson fór mikinn og segja mætti að hann hafi klárað leikinn. Hann var gjörsamlega magnaður og skoraði 14 stig í röð.
Atkvæðamestir
Sinisa Bilic var bestur í herbúðum Álftnesinga með 27 stig og 8 fráköst.
Í liði Fjölnis var hinn 17 ára gamli Daníel Ágúst bestur með 30 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar, ásamt honum var Dwayne Ross Foreman Jr. með 37 stig og 11 fráköst.
Umfjöllun / Gunnar Bjartur
Viðtöl / Fjölnir FB