spot_img
HomeFréttirLiðsmönnum Snæfells smalað úr Ljónagryfjunni

Liðsmönnum Snæfells smalað úr Ljónagryfjunni

 Njarðvík sigraði Snæfell í 7. umferð Domino´s deildar karla í körfubolta fyrr í kvöld á heimavelli sínum, í Ljónagryfjunni, með 98 stigum gegn 83. Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum, um miðja töfluna, með þrjá sigurleiki hvort.
 

 

Njarðvík færast þá upp í 3.-6. sæti, þar sem þeir sitja ásamt Keflavík, Stjörnunni og Haukum á meðan að Snæfell þarf að deila 7.-8. sæti með Þór frá Þorlákshöfn.

 

Í byrjun virtist þó ekkert benda til að heimamenn myndu ná að vinna þennan leik. Snæfell tók fyrsta leikhluta nokkuð örugglega með 26 stigum gegn 16 Njarðvíkur.

 

Í öðrum leikhlutanum fór Njarðvík þó á flug. Með Loga Gunnarsson í flugstjórasætinu og þá félaga Hjört Hrafn og Mirko Stefán sér til halds og trausts náðist þeim að, ekki bara, vinna niður þetta tíu stiga forskot sem gestirnir höfðu stolist í, heldur að fara með fjögurra stiga forskot til búningsklefa í hálfleik.

 

Fljótlega eftir hálfleik komu gestirnir sér í villuvandræði, þegar þeirra atkvæðamestu menn, Austin Bracey og Sigurður Þorvaldsson nældu sér báðir í sínar þriðju villur. Njarðvík hélt sínu striki og sigraði þann leikhluta, með sama mun og þeir höfðu unnið þann á undan, með 14 stigum. Munurinn fyrir lokaleikhluta því kominn í ein 18 stig í vil fyrir heimamenn og miðað við þá siglingu sem þeir voru á og þá áberandi vöntun vilja gestana til að spyrna við, virtist leikurinn vera ákveðinn.

 

Það varð ekki fyrr en um 6 mínútur lifðu eftir af klukkunni sem Snæfell ákvað að koma til baka. Fóru að pressa fullan völl, skotin þeirra duttu nokkur og almennt virtust þeir vera farnir að hafa trú á því að þetta væri leikur sem þeir mættu vinna.

 

Munurinn fór minnst niður í 6 stig þegar um 3 mínútur voru eftir. Rosalegur sprettur hreint hjá Snæfell, en það var samt eins og þeir ættu ekkert eftir inni til að fara restina/lengra.

 

Vendipunkturinn kom annaðhvort þegar að, í miðju áhlaupi gestana (rúmar 3 mín eftir), dómararnir gera heldur langt hlé á leiknum til þess að athuga hversu margar villur (sjá neðar í punktum) ákveðinn leikmaður Njarðvíkur hafi verið búinn að fá á sig. Eða örlitlu seinna þegar leikmanni Snæfells, Sigurði Þorvaldssyni, fannst hafa verið brotið á sér í þriggja stiga skoti (rúmar 2 mínútur eftir). Færa má rök fyrir að hann hafi haft eitthvað til síns máls. Ekkert þó dæmt í kjölfarið nema tæknivilla á hann.

Njarðvíkingar virtust allavegana, eftir þessa dómarapásu/tæknivillu aftur komnir með allt sitt á hreint og spiluðu síðustu tvær mínútur leiksins með eindæmum vel (2 mín. eftir 7 stiga forskot – 1 mín. eftir 10 stiga forskot – 0 mín. eftir 15 stiga forskot).

 

Maður leiksins var líklegast miðherji Njarðvíkur, Mirko Stefán, sem skilaði hæstu framlagi allra leikmanna á vellinum, eða 31 stigi. Fyrir leik kvöldsins hafði Mirko verið með 7,8 stig, 9,1 frákast að meðaltali. Í kvöld skilaði hann hinsvegar 21 stigi og tók 15 fráköst.

 

Punktar:

  • Liðin skiptu með sér leikhlutunum fjórum þar sem Snæfell unnu 1. & 4.(+13), en Njarðvík 2. & 3. (+28)
  • Snæfell skutu 61% af gjafalínunni á móti 80% hjá Njarðvík.
  • Þjálfari Snæfells, Ingi Þór Steinþórsson, fékk enga tæknivillu dæmda á sig í leiknum.
  • Snæfell tapaði 18 boltum.
  • 5 leikmenn hvors liðs skoruðu 10 stig eða meira.
  • Aðeins 3 leikmenn beggja liða af þeim 17 sem komu við sögu spiluðu undir 10 mín. í leiknum.
  • Skrýtið atvik átti sér stað þegar leikmanni Njarðvíkur, Ólafi Aron Ingvarssyni, var meinuð frekari þáttaka í leik þegar rúmar 3 mínútur voru eftir þar sem 5 villur voru komnar á hann á leiktöflu. Samkvæmt beinni tölfræði (Baskethotel) var hann þá þó aðeins með 3 villur og samkvæmt vef KKÍ 4 villur þegar leikur endaði.

 

 

Myndasafn 

Tölfræði 

 

Njarðvík-Snæfell 98-83 (16-26, 33-19, 28-14, 21-24)

 

Njarðvík: Dustin Salisbery 24/7 fráköst, Mirko Stefán Virijevic 21/15 fráköst, Logi Gunnarsson 20/5 fráköst/7 stoðsendingar, Snorri Hrafnkelsson 12, Hjörtur Hrafn Einarsson 12/4 fráköst, Ágúst Orrason 5, Ólafur Aron Ingvason 2/5 stoðsendingar, Maciej Stanislav Baginski 2.

 

Snæfell: Christopher Woods 21/9 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 21/8 fráköst, Austin Magnus Bracey 16/5 fráköst, Sveinn Arnar Davíðsson 10/4 fráköst, Stefán Karel Torfason 10/10 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 5.

 

Dómarar: Jón Bender, Davíð Kristján Hreiðarsson, Georg Andersen

 

Umfjöllun,myndir,viðtöl/ Davíð Eldur

 

 

Sigurður Þorvaldsson – Snæfell:

 

Mirko Stefán – Njarðvík:

 
Fréttir
- Auglýsing -