spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÞórsarar færðu Bjarka sigur í afmælisgjöf

Þórsarar færðu Bjarka sigur í afmælisgjöf

Þórsarar unnu frækilegan sigur gegn Grindavík þegar liðin mættust í Subway deildinni í kvöld, lokatölur 82:80.

Fyrir leikinn í kvöld sat Þór á botni deildarinnar án stiga eftir tíu leiki en gestirnir úr Grindavík voru í þriðja sæti deildarinnar og höfðu í síðasta leik sínum lagt Íslandsmeistarana í Þorlákshöfn og því með blússandi sjálfstraust. En okkar menn voru meðvitaðir um að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Menn bentu á að Þór hafði unnið Grindvíkinga í tveimur síðustu innbyrðisleikjum liðanna sem háðir voru á Akureyri, allt er þá er þrennt er.

Okkar menn mættu vel stemmdir til leiks eftir jafnan og spennandi leik þar sem liðin skiptust á að leiða höfðu okkar menn betur með tveimur stigum 82:80 eftir æsispennandi lokamínútur.

Fyrir leikinn kallaði Bjarki Ármann eftir því að fá meira framlag frá erlendu leikmönnunum ekki síst í ljósi þess að fækkað hafði um einn eftir að Jérémy varð að hætta vegna meiðsla.

Segja má að ósk þjálfarans hafi gengið eftir því þeir áttu ágætis dag þá sérstaklega Reggie sem var stórkostlegur í kvöld.

Það voru þó gestirnir úr Grindavík sem byrjuðu leikinn betur og komust strax í 0:5 og eftir rúmlega þriggja mínútna leik var staðan orðin 4:12 og skömmu síðar 7:14. Þarna bitu Þórsarar frá sér og þeir Eric, Dúi og Ragnar fóru þar fremstir í flokki sem og Kolbeinn og þegar ein og  hálf mínúta lifði af leikhlutanum jöfn 16:16. Grindvíkingar komast í 16:18 og Eric kom Þór yfir með þrist 19:18 en Elbert kom gestunum yfir 19:20 og þannig var staðan þegar annar leikhlutinn hófst.

0Annar leikhlutinn var jafn og spennandi og liðin skiptust á forystunni sem mest var 3 stig þegar liðin gengu til hálfleiks 40:37.

Fyrri hálfleikurinn jafn og spennandi og ljóst að hér yrði barist til síðasta blóðdropa. Í liði Þórs var Bouna komin með 12 stig og Reggie 11 Dúi 8 og Ragnar 6. Hjá gestunum var Elbert með 9 stig,  Naor 7 og Magnús 6.

Þriðji leikhlutinn var jafn og spennandi en þó náðu gestirnir um tíma sex stiga forskoti 45:51. Grindavík leiddi allt fram á loka sekúndu leikhlutans en í stöðunni 58:61 jafnaði Reggie leikinn með þrist 61:61 og þannig var staðan þegar lokaspretturinn hófst.

Grindvíkingar hófu fjórða leikhlutann betur og höfðu nauma þó fyrstu þrjár mínúturnar 67:68 en þá fóru hlutirnir að detta með Þór. Þegar rétt rúmar þrjár mínútur lifðu leik hafði Þór sjö stiga forskot 77:70 og stemningin virtist öll með Þór. En á móti liðum eins og Grindavík er ekki svigrúm til að fagna fyrr en lokaflautið gellur því þegar 50 sekúndur voru til leiksloka var munurinn aðeins eitt stig 79:78. Elbert braut á Dúa sem fór á vítapunktinn og klikkaði á báðum vítaskotunum.

27 sekúndur eftir og Bouna kemur Þór í 81:78 og Ólafur minnkar muninn í eitt stig 81:80. Eftir mikinn darraðardans á báða bóga braut Ólafur á Dúa Þór þegar fimm sekúndur voru eftir. Dúi hitti úr öðru skotinu 82:80. Þær fjórar sekúndur sem eftir voru dugðu gestunum ekki en Ólafur reyndi þriggja stiga skot sem var víðsfjarri. 

Leikurinn var afar jafn og spennandi allan tímann og bauð upp á allt sem prýða getur skemmtilegan körfuboltaleik. Sigur Þórs var verðskuldaður svokallaður seglusigur þar sem liðsheildin skóp sigurinn. Bestir í liði Þórs voru þeir Reggie og Dúi Þór og þá áttu þeir Kolbeinn Fannar og Ragnar frábæran leik.

Hjá gestunum voru þeir Ólafur, Ivan og Elbert frábærir.

Framlag leikmanna Þórs: Reggie Keely 22/4/6, Dúi Þór 20/8/8, Eric Fongue 12/1/0, Bouna 9/6/2, Kolbeinn Fannar 8/6/1, Ragnar 8/8/1, Ólafur Snær 3/1/0. Að auki spilaði Baldur Örn en honum tókst ekki að skora að þessu sinni.

Framlag Grindvíkinga: Ólafur Ólafsson 20/6/2, Ivan Aurrecoechea 18/11/3, Elbert Clark 16/2/1, Naor Sharabani 9/2/4, Kristinn Pálsson 7/7/4, Magnús Engill 6/1/0, Björgvin Hafþór 4/1/0. Að auki spilaði Kristófer Breki en tókst ekki að skora.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -