spot_img
HomeFréttirKeflavík betri en meistarar Snæfells

Keflavík betri en meistarar Snæfells

Keflavík sigraði Snæfell í 18. umferð Domino´s deildar kvenna í körfubolta fyrr í kvöld á heimavelli sínum, í Sláturhúsinu, með 85 stigum gegn 72. Fyrir höfðu þessi tvö lið slitið sig frá restinni í deildinni, en Snæfell sat í 1.sætinu, tveimur leikjum, eða 4 stigum á undan Keflavík í 2. Með sigrinum náði Keflavík þá að minnka bilið á milli liðanna niður í einn leik, eða tvö stig. 
 
 

Síðasta viðureign liðanna sem fram fór í Keflavík endaði með 5 stiga sigri Snæfells þann 3. desember síðastliðinn.

 

Liðin eiga sín á milli eftir tvær viðureignir í vetur. Sú fyrri eru undanúrslit Powerade bikarkeppninnar næstkomandi laugardag í Keflavík, en sú seinni, sem er síðasta viðureign liðanna í deildinni, fer fram í Stykkishólmi 21. mars.

 

Strax í fyrsta leikhluta var nokkuð ljóst að Keflavík ætlaði sér að hefna fyrir síðasta leik liðanna. Byggðu sér upp smávegis forystu í leikhlutanum, sem að þær svo töpuðu niður á síðustu tveimur mínútum leikhlutans, en hann endaði 21-21. Mikið fór fyrir þeim stöllum Carmen Tyson Thomas (11 stig) og Ingunni Emblu Kristínardóttur (8 stig) í byrjun leiks.

 

Í öðrum leikhlutanum var Keflavík aftur skrefinu á undan, en í það skiptið, létu þær hné fylgja kviði og fóru með 10 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik (48-38).

 

Í seinni hálfleiknum náði Keflavík endanlega að sýna það að þær væru betra liðið. Héldu sömu baráttu áfram og héldu forystu sinni út leikinn þrátt fyrir nokkrar tilraunir gestana til að malda í móinn. Leikurinn endaði með 13 stiga sigri heimamanna, 85-72.

 

Það verður því fyrir harm að hefna fyrir Snæfell, sem eins og áður var tekið fram, mæta aftur til Keflavíkur komandi helgi til þess að skera úr um hvort liðið fer í úrslitaleik Powerade bikakeppni kvenna, en við minnum á að sá leikur verður í beinni útsendingu RÚV á laugardaginn kl. 16:30.

 

Maður leiksins var leikmaður Keflavíkur, Carmen Tyson Thomas, sem skilaði hæsta framlagi (52) allra leikmanna á vellinum, en hún skoraði 34 stig, tók 14 fráköst og stal 6 boltum á þeim 35 mínútum sem hún spilaði í leiknum.

 

 

Myndasafn 

Tölfræði 

 

Umfjöllun,myndir,viðtöl/ Davíð Eldur

 

Keflavík-Snæfell 85-72 (21-21, 27-17, 18-18, 19-16)
 
Keflavík: Carmen Tyson-Thomas 34/14 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Ingunn Embla Kristínardóttir 15/5 fráköst, Sara Rún Hinriksdóttir 10/7 fráköst, Sandra Lind Þrastardóttir 9/7 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 7/6 fráköst, Marín Laufey Davíðsdóttir 4, Lovísa Falsdóttir 3, Bríet Sif Hinriksdóttir 2, Bryndís Guðmundsdóttir 1/5 fráköst, Thelma Dís Ágústsdóttir 0, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 0, Elfa Falsdottir 0.
 
Snæfell: Kristen Denise McCarthy 27/10 fráköst/5 varin skot, Gunnhildur Gunnarsdóttir 14/5 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 13/9 fráköst, Berglind Gunnarsdóttir 9/5 stolnir, María Björnsdóttir 4, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 2, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 2, Alda Leif Jónsdóttir 1/4 fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir 0, Anna Soffía Lárusdóttir 0, Silja Katrín Davíðsdóttir 0.
 
Dómarar: Leifur S. Gardarsson, Davíð Tómas Tómasson

 

Birna – Keflavík:

 

Hildur – Snæfell:

 
Fréttir
- Auglýsing -