spot_img
HomeFréttirNjarðvík sigraði grannaslaginn

Njarðvík sigraði grannaslaginn

Njarðvík sigraði Keflavík í 15. umferð Domino´s deildar karla í körfubolta fyrr í kvöld á heimavelli þeirra, í Sláturhúsinu, með 100 stigum gegn 90. Keflavík sitja því í 6. til 7. sæti ásamt Snæfell á meðan að Njarðvík er í því þriðja.
 

 

Laust eftir síðustu áramót höfðu bæði lið kynnt til leiks nýja útlenda leikmenn í sínum liðum. Njarðvík höfðu gert samning við Stefan Bonneau í stöðu leikstjórnanda og Keflavík við Davon Usher. Annar af þessum tveim átti eftir að hafa veruleg áhrif á leik kvöldsins.

 

Fyrri hálfleikurinn spilaðist að miklu leyti eins og uppleggið var fyrir leik. Tvö sigursælustu lið síðustu 30 ára, bæði úr sama bæjarfélagi að kljást um montrétt, sem og stöðu í einkar jafnri baráttu um sætaskipan fyrir komandi úrslitakeppni. Það var því stál í stál. Keflavík skrefinu á undan snemma í fyrsta leikhlutanum, en Njarðvík náðu þeim. Gerðu reyndar gott betur en það og enduðu þann fyrsta með stigs forystu, 22-23. 

 

Svipaðir hlutir í gangi í öðrum leikhlutanum, s.s. Keflavík feti á undan, en Njarðvík fast á hæla að halda í við þá. Þegar liðin gengu til búningsherbergja var staðan 41-40, heimamönnum í vil og ekkert annað en eftirvænting í fjölmörgum stuðningsmönnum beggja liða fyrir seinni hálfleik þessarar áður nefndu “El Clasico” viðureignar.

 

Í þriðja leikhlutanum sýndist þó allt annar tónn vera kominn í gestina frá Njarðvík. Áðurnefndum, nýjum, erlendum leikmanni þeirra, Stefan Bonneau virtist vera nóg boðið, þar sem að hann gjörsamlega tók leikinn yfir og þrátt fyrir flotta spilamennsku í fyrri hálfleiknum, sýndi hann það í þeim seinni að, heilt yfir, væri hann einhver besti leikmaður þessarar deildar með því að trukka sitt lið til 12 stiga sigurs í leikhlutanum og gefa sínum mönnum væna 11 stiga forystu fyrir þann fjórða.

 

11 stig svosem enginn munur í körfubolta fyrir fjórða leikhluta, eða lokaátök hins venjulega leiks. Vissulega einhver munur sem að annað liðið þarf að eiga við, í þessu tilfelli, skipuleggja sókn sína betur og fylla í götin varnarlega. Ætti samt sem áður ekki að vera neitt óyfirstíganlegt fyrir Keflavík að gera þetta að leik aftur, á heimavelli, í Sláturhúsinu gegn grönnum (erkifjendum) sínum úr Njarðvík.

 

Í þeim 4., eins og það hafði reyndar verið eftir hálfleik var það þeim þó hreinlega um of mikið að stöðva hinn stutta, tíðrædda, Stefan Bonneau. Maðurinn skoraði á tímabilum að vild. Hvort sem það voru gegnumbrot eða langir þristar, þá virtist það hreinlega ekki skipta máli. Það endaði allt saman á sama veg hjá leikmanninum, ofaní.

 

Lyktin af örvæntingu Keflavíkur, sem hafði fundist frá um miðjum þriðja leikhlutanum, var líka deginum ljósari, og í raun, efast undirritaður um að nokkrum þeirra fjölmörgu aðdáenda beggja liða sem lögðu leið sína í kvöld hafi verið í nokkrum vafa um hvernig þessi leikur færi eftir að Bonneau ákvað að mæta (bróðurpart seinni hálfleiks, til enda leiks).

 

Njarðvík fór því með 10 stiga (hefði geta verið mun stærri) sigur af hólmi úr viðureign kvöldsins með 100 stigum gegn 90 og fara með því í 3. sæti deildarinnar, aðeins 4 stigum (2x leikjum) á eftir Tindastól í 2. sæti á meðan að Keflavík hrynja niður í það 6.-7. og, með því, þurfa að sætta sig við félagsskap Snæfells (allavegana) næstu vikuna þar.

 

Maður leiksins var leikmaður Njarðvíkur, Stefan Bonneau, sem skilaði hæsta framlagi (46) allra leikmanna á vellinum, en hann skoraði 48 stig (stigamet tímabils – 15/28 af vellinum) og tók 12 fráköst á þeim 37 mínútum sem hann spilaði í leiknum.

 

Punktar:

  • 7 leikmenn Njarðvíkur komust á blað í stigaskorun en 9 hjá Keflavík.
  • Keflavík brenndi af 9 vítaskotum, en Njarðvík 10.
  • Keflavík gaf 18 stoðsendingar, en Njarðvík 14.
  • Nýting Keflavíkur af vellinum var 43% (33/77) , en 44% (34/78) hjá Njarðvík. 
  • Keflavík tók 48 fráköst, en Njarðvík 52.
  • Keflavík tapaði 9 boltum, en Njarðvík 12.
  • Liðin voru jöfn í heildarframlagsstigum í 105.
  • Stigahæsti leikmaður Njarðvíkur, Stefan Bonneau skoraði 48% stiga þeirra, á meðan að hjá Keflavík, skoraði Davon Usher, stigahæsti leikmaður Keflavíkur, 31% stiga sinna manna.

 

Myndasafn #1

Myndasafn #2

Tölfræði 

 

Keflavík-Njarðvík 90-100 (22-23, 19-17, 19-31, 30-29)
 
Keflavík: Davon Usher 28/5 fráköst, Guðmundur Jónsson 24, Þröstur Leó Jóhannsson 20/11 fráköst, Reggie Dupree 4, Arnar Freyr Jónsson 4/6 stoðsendingar, Damon Johnson 4/4 fráköst, Valur Orri Valsson 3/8 fráköst, Davíð Páll Hermannsson 2, Andrés Kristleifsson 1, Gunnar Einarsson 0, Hilmir Gauti Guðjónsson 0, Knútur Eyfjörð Ingvarsson 0.
 
Njarðvík: Stefan Bonneau 48/12 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 16/4 fráköst, Logi Gunnarsson 13/5 stoðsendingar, Mirko Stefán Virijevic 8/15 fráköst, Ágúst Orrason 8, Maciej Stanislav Baginski 6/6 fráköst, Oddur Birnir Pétursson 1, Ólafur Helgi Jónsson 0, Ragnar Helgi Friðriksson 0, Snorri Hrafnkelsson 0, Jón Arnór Sverrisson 0, Magnús Már Traustason 0.

 

Umfjöllun,myndir,viðtöl/ Davíð Eldur

Þröstur – Keflavík:

 

Stefan – Njarðvík:

 
Fréttir
- Auglýsing -