spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaÍslandsmeistararnir lögðu nýliðana nokkuð örugglega í HS Orku Höllinni

Íslandsmeistararnir lögðu nýliðana nokkuð örugglega í HS Orku Höllinni

Íslandsmeistarar Vals lögðu nýliða Grindavíkur í kvöld í Subway deild kvennai, 58-70. Eftir leikinn er Valur í 3. sæti deildarinnar með 16 stig á meðan að Grindavík er í 6. sætinu með 6 stig.

Gangur leik

Valskonur náðu strax á upphafmínútunum að vera skrefinu á undan. Voru nokkuð fastar fyrir í fyrsta leikhlutanum og uppskera 8 stiga forskot fyrir þann annan, 12-20. Í upphafi annars fjórðungsins virðast Valskonur ætla að keyra yfir Grindavík, ná mest 19 stiga forystu. Grindavík nær þó aðeins að svara því og munurinn er aðeins 9 stig þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálflei, 26-35.

Robbi Ryan var atkvæðamest heimakvenna í fyrri hálfleiknum með 10 stig og 6 fráköst. Fyrir Val var Ásta Júlía Grímsdóttir atkvæðamest með tvennu, 10 stig og 10 fráköst.

Í upphafi seinni hálfleiksins gerir Grindavík vel í að halda áfram í við Val. Tapa þriðja leikhlutanum þó með 3 stigum og eru því 12 undir fyrir þann fjórða, 43-55. Í þeim fjórða gerir Valur svo nóg til þess að sigla að lokum mjög svo þægilegum 15 stiga sigur í höfn, 58-73.

Kjarninn

Það er óhætt að segja að þessi leikur hafi farið eftir bókinni. Grindavík í tvígang áður í vetur tapað nokkuð stórt fyrir Val. Grindavík verið eitt af betri sóknarliðum deildarinnar það sem af er tímabili, en Valskonur gera vel á þeirra helsta sóknarvopn í leiknum Robbi Ryan, sem skorar aðeins 14 stig í leiknum.

Eftir frekar stórt tap í síðustu umferð Subway deildarinnar gegn Fjölni virðist Valur vera að ná vopnum sínum aftur, þó svo margt hafi verið hægt að finna að þeirra leik í kvöld. Styrkja stöðu sína enn í 3. sæti deildarinnar, en áhugavert verður að sjá hvernig þeim gengur á móti liðinu í 4. sæti Haukum komandi sunnudag.

Með smá heppni (eða betur nýttum sniðskotum) hefði Grindavík vel geta gert þetta að leik. Hafa alveg verið að stríða liðunum í efri hlutanum í leikjum vetrarins, en það er andskoti erfitt fyrir þær ef að bandarískur leikmaður þeirra Robbi Ryan á ekki betri leik en þetta.

Tölfræðin lýgur ekki

Skotnýting Grindavíkur var afleit í leiknum, setja niður 22 af 80 skotum eða 27%, sem mörg hver virtust ansi einföld. Skotnýting Vals betri, en ekkert til að hrópa húrra fyrir, 23 af 66 eða 34%.

Atkvæðamestar

Ásta Júlía Grímsdóttir var best í liði Vals í kvöld, skilaði 14 stigum og 18 fráköstum á 31 mínútu spilaðri. Fyrir Grindavík var það Edyta Falenzcyk sem dró vagninn með 16 stigum og 9 fráköstum.

Hvað svo?

Valur á leik næst komandu sunnudag gegn Haukum í Ólafssal, en samkvæmt skipulaginu á Grindavík ekki leik fyrr en 19. janúar gegn Breiðablik í Smáranum. Eitthvað má vera að þetta breytist á næstu dögum, þar sem að bikarúrslitin voru færð fram í mars og mögulega verður leikjum bætt við í næstu viku.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Ingibergur Þór)

Fréttir
- Auglýsing -