Ísland átti ekki bara fulltrúa í eigin liðum á Norðurlandamótinu í Solna í síðustu viku, heldur einnig í Norðurlandameisturum Svía í U18 kvenna og U16 karlalandsliði Dana.
Embla Andersson er hálfíslensk en faðir hennar er íslenskur. Hún var í lykilhlutverki hjá Svíum á mótinu, var næststigahæst í liðinu með 9,4 stig í leik og framúrskarandi nýtingu eða 51,6% í tveggja stiga skotum og 44,4% nýtingu í þriggja stiga skotum. Embla átti drjúgan þátt í því að sænskur stúlkurnar sigruðu þær íslensku í leik liðanna sl. laugardag. Embla kom inn á þegar rúmar 3 mínútur voru til leiksloka í stöðunni 50-48 fyrir Íslandi. Embla tók mikilvægt sóknarfrákast þegar þær sænsku jöfnuðu metinn og skoraði síðustu 6 stig Svíþjóðar sem sigraði með 10 stiga mun. Embla var stigahæst sænsku leikmannanna með 14 stig í leiknum.
"Ég var búinn að biðja hana um að vera ekkert að taka allt of mikið á íslensku stelpunum, en hún hlustaði ekki mikið á það," sagði Sveinn Dal Sigmarsson, faðir Emblu glettinn í samtali við Karfan.is.
Tómas Atli Bjarkason á íslenska foreldra en býr í Danmörku og lék með danska U16 landsliðinu í Solna. Tómas var mikilvægur í liði Dana, þriðji stigahæstur með 8,6 stig að meðaltali í leik og leiddi danska liðið í fráköstum með 5,6 í leik.
Myndir: Efri: Embla Andersson (til hægri) ásamt Sofiu Hägg, leikstjórnanda Svía fyrir mótið í Solna. Neðri: Tómas Atli Bjarkason, leikmaður Danmerkur, í leik Íslands og Danmerkur á NM.