spot_img
HomeFréttirAðsent: Meðalmennskuregla

Aðsent: Meðalmennskuregla

Nú hef ég verið að tweeta svolítið um regluna semvar verið að framlengja á síðasta þingi. Þ.e.a.s. 4+1 regluna. Ég ákvað  því bara að henda á blað mínum skoðunum um þessa reglu og hvað mér finnst ábótavant við hana. 

 

Áður en ég byrja vil ég taka það fram að ég er einungis með í huga hvernig best væri að byggja upp það umhverfi svo við getum “ræktað” sem best unga leikmenn til þess að þeim standi sem flestar dyr opnar körfuboltalega séð. 
 

Stefnan

 

Hver er stefna Íslensks körfubolta? Hvað erum við að stefna að sem Íslensk körfubolta þjóð?
 

Það eru allir sammála því að með fækkun erlendra leikmanna minnka gæðin á boltanum sem er spilaður. Ef gæðin lækka þá er ekki jafn mikil samkeppni, bæði innan liðsins og á milli liða.
 

Erum við að stefna að því að gera íslensku deildina að það lítilli tjörn að íslensku leikmennirnir geti verið hákarlar í henni?
 

Erum við að reyna að búa til eitthvað KFUM ogKFUK umhverfi þar sem allir fá sitt og allir eru glaðir, allir fá sínar mínútur án þess að vinna fyrir þeim?
 

Nú hefur KKÍ sett á laggirnar afreksnefnd sem hefur verið starfræk núna í nokkur ár. Er ekki hægt að leggja niður störf hennar með tilkomu þessarrarreglu? Því stefna félaganna er að taka U-beygju frá því sem ég persónulega myndi allavega kalla afreksstefnu. 
 
 

Meðalmennsku regla. 
 

Þetta finnst mér vera orðið sem "zoomerar" þessa reglu nokkuð vel upp. Helstu rök sem ég hef fengið með 4+1 er að Íslendingarnir fái meiri ábyrgð. En þá spyr ég á móti hvað er ábyrgð? 
 

Er ábyrgð ekki að stoppa betri sóknarmann varnarlega? Er ábyrgð ekki að mæta á hverja einustu æfingu og þurfa að spila á móti atvinnumanni og leggja allt í að stoppa hann og skora á hann?
 

Fyrir mér er ábyrgð svo miklu miklu meira heldur en að taka lokaskotið eða hvað það er sem mönnum finnst Íslendingar vera að missa ábyrgðina á með öðrum erlendum atvinnumanni. 
 

Ungir leikmenn
 

Rætt hefur líka verið um að með 4+1 reglunni séuungir leikmenn að fá fyrr mínútur í meistaraflokki, séu að fá stærri hlutverk og blómstra undir þessarri reglu. 
 

Er það svo jákvætt?
 

Ég er mikill talsmaður þess að ef þú vinnur ekki fyrir því sem þú færð, þá er það ekki þess virði. Til þess að ná árangri þá þarftu virkilega að leggja á þig til þess að komast á þann stað sem þú villt vera á. 
 

Nú eru leikmenn að koma upp í meistaraflokk og fá mínútur strax á silfurfati. Fyrir mér er mikið bogið við það. 
 

17-18 ára pjakkar eru að fá mínútur upp í hendurnar, eru að spila vel í slakri deild og líta vel út. En hvað svo næst? Ef þeir stefna að eitthverju meira? Ef þeir vilja ef til vill fara út í skóla? Fara að spila í Evrópu?
 

Því slakari sem deildin er hérna heima því harðari verður veggurinn sem þessir ungu leikmenn lenda á þegar þeir fara erlendis að spila. Það er hollt fyrir alla að lenda á vegg og vinna í því að komast í kringum hann. En það er ekki hollt að lenda það fast á vegg að þú getur ekki staðið upp aftur eða hvað finnst þér?
 

Í gegnum tíðina hafa þeir ungu leikmenn sem skara frammúr fengið að spila sama hvaða regla er í gangi. Þeir hafa alltaf náð að aðlagast og fengið hlutverk. 
 

En ef deildin er slakari þá eiga þeir mun minni séns á að þróa leikinn sinn eins mikið og þeir hugsanlega gætu í sterkari deild.  
 

Vægi bosmanna
 

Ég held að ég sé ekki að segja neinum neitt leyndarmál þegar ég segi að íslenskur körfubolti er mun Ameríku sinnaðari heldur en Evrópu. Flest lið á Íslandi spila amerískan körfubolta þar sem áherslan er frekar lögð á einstaklinginn heldur en system-ið. Enda engin furða þar sem síðastliðna helgi var Final 4 helgi í Euroleague og lítið sem ekkert um það í Íslenskum fjölmiðlum og enginn leikur sýndur neinstaðar, þótt að Íslenska landsliðið sé komið inn á Eurobasket og maður myndi halda að áhugi fjölmiðla á evrópskum körfubolta yrði meiri fyrir vikið. 
 

Þegar ég spilaði á Íslandi þá spilaði ég með nokkrum Bosman leikmönnum. Allir höfðu það sameiginlegt að horfa á leikinn öðruvísi en það semég hafði áður kynnst. 
 

Fyrstu árin mín spilaði ég með Nemanja Sovic. Við áttum mjög skrýtið samband okkar á milli en í gegnum tíðina hafa það verið mín bestu sambönd við liðsfélaga mína. Hann kenndi mér ótrúlega mikið um leikinn, á annan hátt heldur en mér hafði verið kennt áður. Hann benti mér á að stundum þarf maður ekki að vera á fullu allan leikinn til að vera “effective”. Stundum þarftu að hreyfa boltann og láta vörnina slaka á áður en þú ræðst á körfuna, þá eru lið ekki undirbúinn fyrir þig. Þetta er bara eitt dæmi sem hann benti mér á. 
 

Í Keflavík fengum við til okkar eftir áramót mitt seinasta ár á Íslandi Serba sem heitir Andrija Ciric. Þessi maður hafði spilað um alla Evrópu. Á fáeinum mánuðum tók hann mig í nokkurs konar "kúrs" í júgóslavneskum körfubolta. Benti mér á hvernig ætti að stjórna rythmanum á leiknum. Að þegar þú ert kominn 20 stigum yfir, þá er ekki kjörið að skjóta þrist þegar 20 sec eru eftir af skotklukku heldur er þá best að spila sett og láta vörnina virkilega vinna fyrir hlutunum 20 stigum undir. 
 

Þetta eru bara tvö dæmi af fjölmörgum sem ég hef þar sem Bosman leikmenn hafa hjálpað mér með að skilja leikinn betur. 
 

Hugsanaháttur Bosman leikmanna er allt öðruvísi heldur en kana, það er staðreynd sem allir sem koma að körfubolta vita. Öll þau lið sem ná hvað bestum árangri á Evrópskan mælikvarða eru ekki með marga kana innanborðs. Ekki vegna þess að kanarnir eru ekki nógu góðir heldur vegna þess hve hugsunarhátturinn er öðruvísi. Kanar eru aldir upp við mikla einstaklingshyggju, þeir lifa í það stóru samfélagi að þeir þurfa alltaf að vera að hugsa um sjálfa sig til að komast af, hugsa útfrá sjálfum sér til þess að ná árangri, sem er mjög gott að vissu marki en ekki þegar þú ert kominn með of marga með það hugarfar. 
 

Þannig að þeir kanar sem koma hingað til lands skilja margir hverjir ekki mikið eftir sig. Jújú þeir skilja eftir sig tölur, sigra og minningar um hvað þeir gerðu, en hversu mikið hefur kani kennt þér sem hefur spilað í liði með þér? 
 

Eini kaninn sem kenndi mér eitthvað í gegnum tíðina hérna heima var Brenton en hann er mjög einstakur kani/maður. Auðvitað koma kanar inná milli sem eru undantekningar frá reglunni. En þegar á botninn hvolft eru þeir að koma hingað til þess að ná sér í tölur til þess að fara lengra og eru lítið að spá í körfubolta umhverfinu sem þeir eru í og hvað þeir geti gert til þess að bæta það. 
 

Að mínu mati eigum við að horfa mun meira í átt að Evrópskum körfubolta og aðlaga okkur honum, en þar er efni í annan pistil sem ég ætla að láta eiga sig. 
 
 

Taka leikinn sinn á næsta Level

 

Ég sá pistil Kjartans Atla fyrir þingið þar sem hann benti á að leikmenn hafi tekið leikinn sinn á næsta level seinustu 2 ár eftir að reglan var sett á. 
 

Þá spyr ég hvað er að taka leikinn sinn á næsta level?
 

Ef ég myndi sannfæra Pavel um að fara á Akranes og spila með ÍA hans gamla félagi í 1. deild. Þar myndi hann skila að meðaltali: 
 

26 stigum 
20 fráköstum 
20 stoðsendingum
 

Væri hann þá að taka leikinn sinn á næsta level með því að tvöfalda alla tölfræði þætti frá því semhann hafði í Úrvalsdeild? 
 

Flestir myndu svara því með nei. En hvernig eru þá leikmenn að taka leikinn sinn á næsta level með því að spila í slakari deild?
 
Fyrir mitt leyti þá erum við á villigötum með þessa reglugerð. Við erum að setja hömlur á unga leikmenn verða betri, við erum að hægja á þróun þeirra sem leikmanna, við erum að láta leikmenn fá upp í hendurnar eitthvað sem er öllum hollt að vinna sér inn fyrir. 
 

Þegar á botninn er hvolft þá vil ég persónulega hafa deildina hér heima í mínu heimalandi eins sterkasta og völ er á, svo við getum framleitt eins góða Íslenska leikmenn og kostur er. Til þess erum við í þessu myndi ég halda, til að skapa það umhverfi þar sem við erum hvað best á landsvísu og svo alþjóðavísu. 

 

– Hörður Axel Vilhjálmsson

Fréttir
- Auglýsing -