Hæð hefur alltaf skort í íslenskan körfubolta – þar til nú er við höfum tvo leikmenn í æfingahóp íslenska A-landsliðsins fyrir Smáþjóðaleikana sem eru vel á þriðja meter. Ragga Nat og nú Tryggva Snæ Hlinason.
Raggi Nat þekkir þetta allt frá því í fyrra en Tryggvi er nýliði í hópnum. Leit fyrst á körfubolta fyrir um 2-3 árum og nú í úrvali þeirra bestu. Karfan.is tók Tryggva tali fyrir skemmstu og spurði hann út í upplifunina.
"Ég er bara mjög spenntur fyrir að hitta þessa kalla og kynnast hópnum," sagði Tryggvi, svo gott sem nýlentur frá Solna eftir Norðurlandamót yngri liða. Tryggvi er hógvær á yfirlýsingarnar og segist fyrst og fremst spenntur fyrir að sjá hvernig þetta fer allt saman fram. "Verður bara forvitnilegt að sjá hvernig þetta lítur allt út og hvernig ég muni standa mig í þessum hóp."
Hæstur allra leikmanna á NM í Solna fyrr í mánuðinum, er Tryggvi 214 cm á hæð. Hann er spenntur að fá að takast á við sér hærri leikmann. "Hef ekki lent í því hingað til en ég fæ loksins að prófa að spila við hærri mann í körfuboltanum."
Tryggvi er samt sem áður slakur yfir öllum æsingnum í kringum þetta allt. Er aðeins þakklátur fyrir að fá þetta tækifæri. "Hlakka bara mest til að fá reynsluna frá þessu öllu saman. Það er það helsta sem ég vil fá frá þessum æfingum."
Tryggvi spilar með Þór Akureyri í 1. deildinni og er mjög spenntur fyrir nýjum þjálfara, en Benedikt Guðmundsson, fráfarandi þjálfari Þórs Þorlákshöfn hefur tekið við taumnum fyrir norðan.
"Ég er búinn að mæta á eina æfingu, eftir að ég kom heim frá Solna. Mér líst mjög vel á Benna. Hann er að rífa körfuboltann í gang hérna á Akureyri," segir Tryggvi spenntur. "Þetta er eitthvað sem mig hefur langað síðan ég byrjaði á Akureyri. Þetta er bara snilld og ég get ekki beðið eftir næstu leiktíð."
Aðspurður um hvort úrvalsdeildin sé á næsta leiti segir Tryggvi: "Ekki spurning. Þetta er allt að fara að gerast núna á næstu árum."