spot_img
HomeFréttirFimm lið á einni viku

Fimm lið á einni viku

Í síðustu viku var Luke Ridnour á leikmannaskrá Orlando Magic þar sem hann hafði spilað á síðustu leiktíð með fremur slökum árangri. Nú eftir 6 daga er hann orðinn leikmaður Toronto Raptors eftir stutta dvöl hjá þremur öðru félögum á þessum tíma. Luke okkar skoraði aðeins 4 stig og gaf 2 stoðsendingar á tæplega 15 mínútum í leik með Magic. 

 

24. júní sl. var Ridnour skipt til Memphis Grizzlies. Daginn eftir sendu Grizzlies okkar mann til Charlotte Hornets sem sendu hann svo til Oklahoma City Thunder seinna sama dag. Fyrr í dag sendu svo Thunder aumingja Luke til Toronto Raptors fyrir samningsréttinn á Króatanum Tomislav Zub?i? og einhverja skiptimynt.

 

En hvað veldur því að svona arfaslakur leikmaður gengur kaupum og sölum á leikmannamarkaði NBA deildarinnar? Jú, Luke er með allt of stóran samning fyrir eigið ágæti sem er ótryggður ef liðið sem hefur hann í sínum bókum riftir samningnum fyrir lok dags í dag. Slíkir samningar eru gull í augum liða sem vilja losa um pening til að versla á leikmannamarkaðnum. Allar líkur eru á að svo verði raunin og ferðalagi Luke sé því lokið nú hjá Toronto sem mun senda hann samningslausan frá sér. Toronto mun þá spara sér $2,75 milljónir af launaþakinu nú þegar leikmannamarkaðurinn opnaði í dag.

 

Undirritaður veit ekki til þess að nokkur leikmaður í NBA deildinni hafi verið á mála hjá jafnmörgum liðum á jafnstuttum tíma og Luke vinur okkar. Þetta hlýtur að vera eitthvað met.

Fréttir
- Auglýsing -