Tindastóll hefur gengið frá ráðningu á nýjum þjálfara meistaraflokks kvenna fyrir komandi tímabil í næstefstu deild. Nýr þjálfari liðsins er Helgi Freyr Margeirsson, sem er Skagfirðingum vel kunnugur, enda hefur Helgi komið að starfi körfuknattleiksdeildar Tindastóls um árabil sem leikmaður, þjálfari og sjálfboðaliði.
Samhliða þjálfun meistaraflokks kvenna mun Helgi stýra körfuboltaakademíu Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, sem og að sinna verkefnum tengdum þátttöku Tindastóls í FIBA Europe Cup þennan veturinn.