Körfuknattleikskona ársins síðustu þrjú ár Sara Rún Hinriksdóttir hefur samið við spænska liðið Sedis um að leika með þeim á komandi tímabili. Staðfestir Sara þetta í samtali við Körfuna fyrr í dag.
Sara Rún kemur til Setis frá Seríu A félagi Faenza á Ítalíu þar sem hún lék á síðustu leiktíð. Sedis hefur samfellt leikið í efstu deild Spánar síðan árið 2007 og hafa iðulega komist í úrslitakeppni deildarinnar, þrátt fyrir að hafa aldrei unnið hana. Á síðustu leiktíð endaði liðið í 7. sætinu og árið þar á undan í 4. sæti. Þá leika þær einnig í Eurocup. Félagið er staðsett í borginni La Seu d’Urgell sem er staðsett nálægt landamærum Spánar að Frakklandi í Katalóníu.
“Hefur alltaf langað að spila í þessari deild, spennandi tímar framundan hjá liðinu og mikill metnaður. Svo spila þær lika Eurocup sem ég er mjög spennt fyrir, þær komust langt áfram í þeirri keppni í fyrra og langar að gera það sama nuna í ár. Svo held ég lika að þetta sé skemmtilegur staður til að búa á, við Frakkland nálægt Andorra, svo er líka stutt í Barcelona” Sagði Sara Rún um hvernig það hafi komið til að hún samdi við félagið.
Aðspurð hvort hún væri ekki spennt að taka skrefið til Spánar sagði Sara Rún “Já, ekkert smá, mjög hraður liðsbolti og mikill fókus á vörnina. Verður líka gaman að keppa á móti öllum þessum góðu leikmönnum og sjá hvar maður stendur með þeim.”