Þegar tímabilið 2014-2015 verður gert upp í sögubókum körfuboltans verður vafalaust lítið fjallað um Orlando Magic. Liðið vann aðeins 25 leiki þó það hafi byrjað nokkuð vel. Langar taphrinur, ótalmargir leikir sem töpuðust með 4 stigum eða minna, góð forskot gefin frá sér í þriðja og fjórða leikhluta og leikir sem þeir áttu að vinna, töpuðust. Meiðsli lykilmanna settu einnig strik í reikninginn en eitt stærsta vandamálið voru sífelldar breytingar á uppstillingum liðsins leik fyrir leik og stefnu- og getuleysi þjálfara. Menn duttu inn og út úr byrjunarliði, voru skyndilega mikið á bekknum og þessar endalausu hræringar urðu þess valdandi að liðið náði aldrei almennilegum takti. Það var því mikið af svekkelsi hjá hinu unga liði í mið-Flórída.
Að mati margra, þar með talið annarra leikmanna deildarinnar, þjálfara, formanna, blaðamanna og stuðningsmanna, var liðið ekki svona slakt vegna lélegra leikmanna. Þvert á móti, var talað um að liðið væri mun betra en vinningshlutfallið gæfi til kynna og þetta væri orku- og baráttumikið lið sem bara væri enn of ungt og reynslulaust. Með tíma og reynslu, og viðbættum nýjum leikmönnum, reynsluboltum sem og nýliðum, myndi þetta lið án vafa taka stökk upp á við.
Hafði Rob Hennigan, hinn ungi stjóri liðsins ásamt hans hægri og vinstri handlegg í þeim Scott Perry og Matt Lloyd, auk öflugs teymis aðstoðarmanna og njósnara, safnað saman fjölda efnilegra leikmanna, auk nokkurra skrúbba á bekknum auðvitað. Lykilmenn og framtíð liðsins voru allir reynslulitlir. Victor Oladipo (valinn með öðrum valrétti í nýliðavalinu 2013), Tobias Harris (kom frá Milwaukee í skiptum fyrir J.J. Redick árið 2013), Nikola Vucevic (kom frá Philadelphia sem hluti af pakkanum sem sendi Dwight Howard til LA Lakers), Elfrid Payton (valinn með tíunda valrétti af Philadelphia árið 2014 en skipt til Orlando fyrir Dario Saric) og Aaron Gordon (valinn með fjórða valrétti árið 2014).
Aðrir leikmenn: Evan Fournier, sem kom á óvart sem góður sóknarmaður af bekknum, Maurice Harkless, sem fékk lítið að spila vegna einbeitingarskorts, Willie Green, sem fékk of mikið að spila, Ben Gordon, sem stóð sig prýðilega eftir slakt gengi fyrri ára, Dewayne Dedmon, sem var skemmtileg orkusprauta af bekknum, Luke Ridnour, varaleikstjórnandi, Kyle O‘Quinn, sem fékk færri leiktækifæri þetta tímabilið en áður og Channing Frye, sem fann sig ekki nægilega vel í liðinu. Tveir aðrir fengu lítið sem ekkert að spila, en það voru þeir Devyn Marble, sem spilaði nokkra leiki með aðalliðinu en var mest allt tímabilið með D-League liðinu Erie BayHawks og svo Andrew Nicholson, en þrátt fyrir efnilegan sóknarleik, þá fékk hann ekki mörg tækifærin.
Tveir leikmenn liðsins hafa risið sérstaklega upp metorðastigann, en það eru þeir Tobias Harris og Nikola Vucevic. Sá síðarnefndi var óþekktur þegar hann kom til Orlando frá Philadelphia og þótti mörgum að Hennigan hafði gefið Howard frá sér fyrir allt of lítið. Það sem ekki hefur oft verið nefnt er að Hennigan neitaði að taka þessum skiptum nema Vucevic kæmi til Orlando. Sixers samþykktu og svartfellingurinn flutti á Flórídaskaga. Var hann álitinn uppfylliefni þetta sumarið en strax á fyrsta tímabili sínu með Magic fór hann að sýna hvað í honum bjó. Hennigan gerði honum það strax ljóst að hann væri lykilmaður í þessari uppbyggingu og það efldi sjálfstraust Vucevic. Er hann í dag einn af betri frákastamönnum deildarinnar og dagleg ógn hvað varðar tvöfallda tvennu. Svo góður var hann á nýloknu tímabili að hann var talinn líklegur í Stjörnulið austursins. Fjölhæfur sóknarmaður en ekki til frásagnar þegar kemur að varnarleiknum. Það er spurning hvað nýtt þjálfarateymi liðsins gerir í þeim málum. Vucevic framlengdi samning sinn við Orlando á síðasta tímabili, til fjögurra ára.
Harris, eins og Vucevic, var lítið þekktur þegar títtnefndur Hennigan krafðist þess að hann kæmi í skiptunum fyrir J.J. Redick. Uppfylliefni, sögðu spekingarnir. En Hennigan og hans teymi styðjast mikið við tölfræðigreiningu og sáu þeir eitthvað í þessum unga strák. Að mati margra blaða- og fræðimanna er Harris í dag einn efnilegasti ungi framherji deildarinnar. Fjölhæfur leikmaður sem spilað getur bæði þristinn og fjarkann. Í grein sem birtist á síðasta tímabili hjá Basketball Analytics, var Harris sagður vanmetnasti leikmaður deildarinnar. Þar var fjallað um fjölhæfa framherja, sem skoruðu yfir 15 stig, gripið yfir 6 fráköst og hitt úr yfir 35% tilrauna utan 3ja stiga línu úr að lágmarki 2 tilraunum í leik. Voru aðeins 6 framherjar í deildinni sem uppfylltu þetta. Paul Millsapp, Chris Bosh, Kevin Love, Kevin Durant, LeBron James og Tobias Harris. Á síðustu fimm tímabilum hafa aðeins fjórir leikmenn 22 ára eða yngri, náð þessari tölfræði. Það eru þeir Durant, Love, Paul George og Harris. Harris endursamdi við liðið til fjögurra ára núna í sumar.
Tímabilið hófst ekki glæsilega hjá Victor Oladipo. Á æfingu liðsins áður en undirbúningstímabilið hófst, meiddist hann á hné, sem þó voru ekki alvarleg en kröfðust þó spelku og stuttu síðar kinnbeinsbrotnaði hann. Þetta gerði það að verkum að hann missti af fyrstu leikjum tímabilsins en sneri þó aftur með grímu fyrir andlitinu eftir að hafa gengist undir aðgerð. Hann er einn af efnilegustu ungu bakvörðum deildarinnar og mikill kappsmaður. Öflugur varnarmaður sem tekur áhættu en vegna skipulagsleysis í varnarleik liðsins hefur hann ekki notið sín almennilega þegar kemur að varnarleiknum. Öflugur sóknarmaður og þá sérstaklega þegar kemur að gegnumbrotum og troðslum. Þótti ekki sérstakur skotmaður fyrir þetta tímabil en bætti sig í skotnýtingu á öllum stöðum á vellinum. Klárlega leikmaður sem á eftir að verða betri með tímanum.
Nýliðar liðsins eru efnilegir, þó það hafi ekki verið gerðar neinar sérstakar væntingar til þeirra fyrir þetta tímabilið. Hennigan tók áhættu þegar hann valdi Aaron Gordon nr. 4 í nýliðavalinu en hann var hreinlega of ungur og hrár til að fara að gera einhverjar rósir strax á sínu fyrsta ári. Þrátt fyrir það átti hann frábær augnablik hér og þar og sýndi hvað í honum bjó. Mikill íþróttamaður sem gat spilað frábæran sóknarbolta og ekki síðri varnarleik. Hans helsta vandamál var þó slök skotfærni hans. Ristarbrot varð svo til þess að hann missti af 35 leikjum. Hann sýndi þó og sannaði í sumardeildinni í Orlando í ár að hann hefur bætt sig gríðarlega hvað varðar skotnýtingu og skottækni. Svo mikið að menn taka varla af honum augun og lýsa yfir mikilli ánægju yfir hversu mikið hann hefur bætt sig. Hann er í dag mikil sóknarógn og getur að því er virðist hitt hvaðan sem er af vellinum auk þess að vera gríðarsterkur í teignum. Hann er mikið efni sem vert er að hafa augun á, á komandi árum.
Elfrid Payton reis upp Draft-stigann fyrir nýliðavalið í fyrra og endaði svo nr. 10 hjá Philadelphia sem síðan sendu hann til Orlando. Fjölhæfur leikstjórnandi sem er ekki mikið fyrir sirkústilþrif heldur hnitmiðaðar og árangursríkar sendingar og gegnumbrot. Mjög öflugur í gegnumbrotum og góður frákastari. Flest stig hans koma úr sniðskotum og troðslum, en hann verður seint talinn góð skytta. Ef eitthvað er þá er hann arfaslakur í þeim málunum, bæði utan af velli sem og á vítalínunni. Hann á mjög margt líkt með Rajon Rondo, bæði hvað varðar leikstíl sem og vankanta. Hann varð þó fyrsti nýliðinn til að ná þrefaldri þrennu tvo leiki í röð síðan Antoine Walker gerði slíkt hið sama árið 1997. Það er stuttur en magnaður listi leikmanna sem hafa gert það í sögu NBA: Auk þeirra Payton og Walker eru þar Jason Kidd, David Robinson, Magic Johnson, Alvin Adams og Oscar Robertson.
Í byrjun árs þótti jakkafataklæddum skrifstofumönnum liðsins nóg komið af slöppu gengi liðsins og tóku ákvörðun sem stuðningsmenn liðsins höfðu grátbeðið um í meira en ár: Jacque Vaugn, þjálfara, var sagt upp störfum en undir hans stjórn var liðið stefnulítið og bitlaust. Í hans stað var aðstoðarþjálfari hans, James Borrego, ráðinn til að klára tímabilið. Þegar því lauk ákvað hann svo að ganga í raðir aðstoðarþjálfarateymis Gregg Popovich hjá San Antonio Spurs. Eftir nokkra leit að næsta aðalþjálfara var Scott Skiles, fyrrum leikmaður Orlando og fyrrum þjálfari Phoenix Suns, Chicago Bulls og Milwaukee Bucks, ráðinn. Það ætti því að vera betra skipulag á varnarleik liðsins á næsta tímabili og munu menn sem fyrir eru mikil varnarefni að njóta vel, þar er sérstaklega átt við Oladipo, Payton og Gordon.
Sumarfríið í ár hófst snemma hjá Magic, þar sem liðið komst jú ekki í úrslitakeppnina. Næsta mál á dagskrá eftir þjálfararáðninguna, var nýliðavalið þar sem liðið átti fimmta valrétt. Töldu spekingar að liðið mundi velja Justise Winslow eða mögulega Kristaps Porzingis, en þó voru nokkrir sem horfðu til króatans Mario Hezonja sem leikmann sem þetta lið skorti. Það var alveg á kristaltæru að liðið þurfti mann sem getur skotið utan af velli sem og brotið sér leið að körfunni, s.s. verið ógn hvar sem er vellinum og því opna fyrir leik annarra en vegna frekar lélegra skotmanna hafa andstæðingar þeirra leyft þeim að skjóta að mestu utan af velli og pakka sér frekar inn í teiginn.
Það kom svo á daginn að Hezonja var maðurinn og hafði verið það í langan tíma hjá Hennigan og félögum hans, en hann upplýsti það á blaðamannafundi að Hezonja hafði verið undir smásjánni hjá þeim í hátt í 3 ár og hann sjálfur ásamt aðstoðarmönnum og njósnurum, mætt á fjölda leikja með honum hjá FC Barcelona, sem og landsliði Króatíu. Stuðningsmenn liðsins óttuðust þó að þarna væri komið annað eintak af Fran Vázquez, sem Orlando valdi nr. 11 árið 2005 en gekk aldrei í raðir Orlando heldur hélt sig á Spáni. Hennigan sem og Hezonja sjálfur sögðu þó að hann væri á leiðinni, samningar til að losa hann undan samning hjá Barcelona gengu vel og mánudeginum eftir nýliðavalið var Hezonja laus allra mála og flaug strax til Orlando. Barcelona heldur þó Evrópuréttinum á honum, sem þýðir að ef Hezonja vill einhvern tímann aftur spila í Evrópu, þá á Barcelona réttinn á að fá hann til sín.
Hezonja er ein besta skytta nýliðavalsins en einnig gríðarlega öflugur í að brjóta sér leið að körfunni og smella einni troðslu í andlit andstæðinga. Mikið efni en einnig mikil áhætta. Mun hann ná fótfestu í NBA deildinni, spyrja einhverjir, en aðrir benda á að hann er líklega sá nýliði sem hvað best er undirbúinn fyrir deildina, eftir að hafa spilað í atvinnumennsku í fjölda ára og núna síðast í næstbestu deild heims, þeirri spænsku. Hann ætti að smellpassa í þetta lið, en fyrir eru ungir strákar sem allir eru gríðarlega miklir vinnuhestar þegar kemur að því að vilja bæta sig og vinna saman sem lið á vellinum. Hann mun einnig veita liðinu góðan skammt af sjálfstrausti og hroka, en bent hefur verið á að það er ekki skortur á þeim sviðum hjá Hezonja.
Í annarri umferð, nánar tiltekið nr. 51, völdu Orlando skyttu frá Eastern Washington háskólanum en hann var stigahæstur í NCAA Division 1 með 23 stig að meðaltali í leik. Harvey mun að öllum líkindum ekki fá mörg tækifærin á næsta tímabili og líklegt er að hann fari á mála hjá Erie BayHawks í D-League.
Stuðningsmenn Orlando vonuðust eftir að sjá nafn liðsins í tengslum við hin og þessi stórnöfnin með lausa samninga og strax á miðnætti þegar glugginn opnaðist, fékk Paul Millsap max tilboð frá Orlando en eftir stuttan umhugsunarfrest ákvað hann að halda sig í Atlanta. Lítið var minnst á Orlando í tengslum við stór nöfn og það sem af er sumrinu hafa aðeins bekkjarmenn bæst á leikmannaskrá liðsins. Þar má helstan nefna CJ Watson sem fór frá Indiana Pacers og gekk í raðir Orlando, en hann hafði lengi langað að spila með félaginu. Mun hann verða varaleikstjórnandi á eftir Payton. Jason Smith kemur frá New York Knicks og mun sjá til þess að bekkurinn verður sjaldan kaldur en hann fær þó einhver tækifæri á eftir þeim Harris, Gordon og Frye. Janis Timma, ungur leikmaður frá Lettlandi sem ekki enn hefur spilað í NBA, kom í skiptum fyrir Luke Ridnour sem fór til Memphis Grizzlies og síðan þá ferðast um hálfa deildina.
Frá liðinu eru farnir þeir Kyle O‘Quinn, sem fer á æskuslóðir í New York Knicks. Hann fékk því miður ekki verðskulduð tækifæri á síðasta tímabili í Orlando en vonandi verður annað upp á teningnum hjá Knicks. Samdi hann til fjögurra ára. Félagið átti rétt á að halda eða hafna næsta ári á samning sínum við Ben Gordon og var honum sleppt lausum stuttu eftir að tímabilinu lauk. Willie Green mun að öllum líkindum ekki snúa aftur, en hann hefur verið í viðræðum við meðal annars Clippers.
Orlando Magic ætti samkvæmt öllu að vera töluvert betra lið á næsta ári. Betri í sókn, með ný vopn og bætingu hjá ungum leikmönnum sem fyrir voru, ásamt því að vera betra skipulagðir þegar kemur að varnarleik. Stefnan er sett á úrslitakeppnina og nú er bara að fylgjast með og sjá hvort þeim tekst að láta áætlunarverk sitt ganga eftir. Mögulega eitt af skemmtilegri liðum deildarinnar ef allt gengur eftir og menn halda sér meiðslalausum.
Arnar Freyr Böðvarsson