spot_img
HomeFréttirFree Agency, launaþak og nýliðaval NBA deildarinnar

Free Agency, launaþak og nýliðaval NBA deildarinnar

Í upphafi júlí hefst hið árlega kapphlaup liða NBA deildarinnar um leikmennina sem eru með lausa samninga það árið. Þegar leikmenn verða samningslausir þá getur hvaða lið sem er boðið þeim samning og leikmenn hafa þá frjálsar hendur til velja sér það lið og þær aðstæður sem þeim hugnast best. Áður en farið er yfir stærstu bitana þetta sumarið og hverjir fóru hvert er upplagt að rýna aðeins í hvað það felur í sér að leikmenn séu samningslausir. 

 

Free Agency
Samningslausir leikmenn skiptast í tvo hópa; leikmenn bundnir félagi (e.restricted) og leikmenn sem eru ekki bundnir félagi (e.unrestricted). Þeir leikmenn sem eru bundnir hafa ekki sama frjálsræði og hinir sem eru óbundnir. Þegar leikmaður er bundinn félagi sínu en er samt samningslaus (hér er mögulega um einhverja tvíræðni að ræða Hr. Silver) þá getur hvaða lið sem er boðið í hann en kjósi liðið sem hann er bundinn að jafna það boð þá verður hann áfram hjá því liði. 

 

Skýrasta dæmi um bundna samningslausa leikmenn þessa sumars er úr herbúðum meistaraliðs Golden State Warriors þar sem Draymond Green kaus að vera áfram í herbúðum Golden State auk þess kaus Jimmy Butler, skotbakvörður Chicago Bulls og sá leikmaður sem tók mestum framförum í deildinni síðastliðinn vetur, að vera áfram hjá Bulls. Möguleg skýring þess hve þaulsetnir leikmenn eru hjá félögum sínum er sú að félögin gefa það yfirleitt út þegar líður að samningslokum að þau muni jafna boð andstæðinga sinna og í því felst nokkur fælingarmáttur fyrir önnur lið. Eini samningslausi leikmaðurinn sem er bundinn sínu félagi og hefur fengið samningsboð annars staðar frá er miðherji Oklahoma, Enes Kanter. Fréttir undanfarna daga herma að Portland hafi boðið Kanter 70 milljónir dala fyrir fjögurra ára samning (Kanter hefur val um fjórða árið). Líklega væri sniðugt að rekja samninga NBA deildarinnar og fyrirkomulag þeirra (og þróun) í öðrum pistli, möguleikarnir eru svo gríðar margir fyrir lið og leikmenn hvernig þau hátta skipulagi samninga með tilliti til launaupphæðar, samningslengdar og annarra ákvæða.

 

En aftur að efninu. Það sem af er sumri hefur engin breyting orðið á fyrrgreindu kauphlaupi liða deildarinnar. Þann fyrsta júlí ár hvert opnar glugginn fyrir lið til að hefja samningaviðræður við samningslausa (óbundna sem bundna) leikmenn. Lið geta lagt fram tilboð til leikmanna og boðið þeim eins til fimm ára samning allt eftir því hverjar aðstæður liða eru. Viku síðar, eða þann níunda júlí verður það formlegt hvert leikmenn fara og þá fyrst mega leikmenn skrifa undir þótt þeir tilkynni það eða það lekur út með einhverjum hætti hvert viðkomandi leikmaður fer áður en vikan er liðin.

 

Stærstu bitarnir í ár voru án vafa LeBron James og kollegi hans úr Cleveland, Kevin Love, LaMarcus Aldridge framherji Portland, Marc Gasol miðherji Memphis, Dwyane Wade bakvörður Miami og DeAndre Jordan miðherji Clippers. Raunin er sú að þrátt fyrir að mikið hafi verið látið með það að þessar stjörnur væru samningslausar í sumar þá er þetta sumar (eða það sem er liðið af því) mögulega eitt minnst spennandi sumar NBA deildarinnar hvað þetta varðar. Eina sem kom verulega á óvart var að DeAndre Jordan sem hafði átt sitt besta tímabil á ferlinum með rúm ellefu stig og leitt deildina með fimmtán fráköstum að meðaltali í leik skyldi ákveða að semja við Dallas Mavericks, þrátt fyrir að vera afskaplega mikilvægur (og nánast ómissandi) hlekkur í leik Clippers. Það kom því enn meira á óvart að honum skyldi snúast hugur í vikunni og semja á nýjan leik við Clippers. 

 

Kevin Love samdi við úrslitalið Cleveland á nýjan leik, einhverjar getgátur voru uppi á vormánuðum um að Love væri farinn að hugsa sér til hreyfings enda hávært slúður uppi um að þeir LeBron væru engir perluvinir og að Love hugnaðist að vera stærra númer í öðru liði heldur en að vera rándýrt þriðja hjól James og Íslandsvinarins Kyrie Irving. Þegar leið á úrslitakeppnina (og eftir að Love meiddist eftir fólskulegt brot) varð það skýrara og skýrara að Love yrði áfram hjá Cleveland. Marc Gasol sem af mörgum er talinn besti miðherji deildarinnar var mjög eftirsóttur en hann gaf það sterkt til kynna að hann myndi ekki ræða við önnur lið en sitt lið Memphis og verður þar næstu árin. LeBron James, besti leikmaður þessa jarðríkis var með ákvæði í sínum tveggja ára samningi um að hann gæti sagt honum upp í lok þessa tímabils sem og hann gerði. Þrátt fyrir það vissu allir viti bornir menn (og konur) að hann yrði áfram hjá Cleveland og nú herma fregnir að hann hafi samið til eins árs og verði því samningslaus aftur sumarið 2016 líkt og Kevin Durant, leikmaður Oklahoma. 

 

Launaþakið
Það sem vakir fyrir James með því að segja upp samningi sínum í ár og semja á ný til ársins 2016 (og örugglega semja aftur við Cleveland þá) er að hámarka virði sitt sem besti leikmaður deildarinnar. James vissi af því að launaþak NBA deildarinnar á liðin myndi hækka í sumar og enn meira 2016 vegna nýs sjónvarpssamnings sem tekur gildi fyrir tímabilið 2016-2017. Launaþak deildarinnar var 63,1 milljón dollara síðastliðið tímabil en verður 70 milljónir dollara næsta tímabil. Launaþakið hækkaði ögn meira í sumar en liðin bjuggust við og þegar nýr sjónvarpssamningur deildarinnar tekur gildi mun launaþak deildarinnar vera 89 milljónir dala.  Og enn verður hækkun á launaþakinu fyrir tímabilið 2017-2018 þegar það verður orðið 108 milljónir dala. Það útskýrir betur það sem virðist vera háir langtímasamningar við marga leikmenn deildarinnar í sumar en í ljósi þess að launaþakið hækkar um rúmlega 41% á næstu tveimur árum og 71% á næstu þremur árum þá eru þessar tölur ekki lengur svo galnar. Fyrir leikmenn er því sterkt viðskiptalega að semja um stutta samninga en fyrir liðin eru það langtímasamningar sem verða verðmætari.

 

Þar sem James er brjáðsnjall í viðskiptum þá er hann meðvitaður um þetta og gerir stutta samninga (eða nýtir sér uppsagnarákvæði sitt) til að hámarka virði sitt. Auk þess færir þetta honum aukin völd með tilliti til þess að hann setur vissa pressu á eiganda Cleveland Cavaliers um að styrkja liðið nægilega mikið. LaMarcus Aldridge samdi svo að lokum við best rekna félag deildarinnar, San Antonio Spurs og það var líklega fyrirsjáanlegt þó svo að hann hafi rætt við önnur lið.

 

Nýliðavalið
En sumrin í NBA snúast ekki bara um samningslausa leikmenn. Undanfari viku-kauphlaupsins er nýliðavalið. Mikil eftirvænting ríkti hjá flestum enda skiljanlegt í ljósi þess að miklu er búist við af þeim leikmönnum sem valdir voru fyrstir. 

 

Minnesota datt í lukkupottinn í ár og fengu fyrsta valrétt. Val þeirra stóð á milli miðherjanna Jahlil Okafor frá Duke og Karl-Anthony Towns frá Kentucky. Minnesota notaði valréttinn til að taka Towns frá Kentucky. Hann er af mörgum talinn vera hrárri leikmaður en Okafor sóknarlega en þykir mjög góður varnarmaður og það er góður grunnur til að byggja á (í raun mætti að einhverju leyti líkja þessu við debatið um Jabari Parker vs Andrew Wiggins frá því í fyrra). Los Angeles Lakers tróð sér fram fyrir New York Knicks og Philadelphia 76ers og fengu annan valrétt. Þeir völdu sér leikstjórnandann D´Angelo Russell frá Ohio State. Margir telja að Russell muni verða besti leikmaður þessa nýliðavals og það er ekki galin ágiskun. Hann gefur frábærar sendingar, er góður skotmaður og getur nýst Lakers sem skotbakvörður. Hann þarf þó að bæta sig varnarlega og komast í skyrið og lambakjötið.

 

Mestan part vetrar ræddu spekingar og áhugamenn mest um Jahlil Okafor. Hann þótti líklegastur til að vera valinn með fyrsta valrétti en féll í skaut Philadelphia sem völdu númer þrjú í röðinni. Okafor er með frábært vopnabúr á blokkinni, hann er góður með bakið að körfunni en er ekki jafn öflugur varnarlega og Towns og er ekkert sérstakt íþróttalegt viðundur.

 

Kristaps Porzingis, sem New York Knicks völdu númer 4 úr spænsku deildinni, er framandi nafn. Hann hefur þó burði til að verða hörku, hörku leikmaður. Porzingis er “stretch-4”, mælist sjö fet, er frábær skotmaður og mér fróðari menn telja hann geta orðið tuttugu stiga og tíu frákasta mann. Hann þarf þó að komast í sömu skyrhræru og sama lambakjötið og Russell, hann þarf að styrkja sig. Auk þess þarf hann að sýna meiri áræðni og bæta leik sinn varnarlega. 

 

Orlando Magic völdu Mario Hezonja frá Barcelona með fimmta valrétti. Undirritaður sá myndband af honum úr Summer League í vikunni og er búinn að koma sér kyrfilega fyrir á Hezonja-vagninum. Hezonja hefur í raun allan pakkann – hann er líkamlega tilbúinn og hefur tæknilega getu. Hann býr yfir fjölbreyttu sóknarbúri og getur spilað vörn. Hann er þó á köflum villtur og spurning hversu þolinmóðir menn eru fyrir því í Orlando hrepp.

 

Willie Cauley-Stein frá Kentucky háskólanum er spennandi kostur fyrir Sacramento Kings sem völdu hann númer sex í röðinni. Hann er frábær varnarmaður, ver skot og getur spilað vörn á jafnt miðherja sem skot-framherja og gríðarlega mikill íþróttamaður. Hann þarf þó að bæta sitt hvað í sóknarleiknum. Önnur spennandi nöfn í nýliðavalinu eru Emmanuel Mudiay sem Denver valdi númer sjö, Justise Winslow sem fór til Miami og Frank Kaminsky sem fór til Charlotte svo fáeinir séu nefndir.

 

Guðni Eiríkur Guðmundsson

Fréttir
- Auglýsing -