Skallagrímsmaðurinn Trausti Eiríksson er kominn til liðs við ÍR og mun spila með félaginu á næstu leiktíð. Trausti og Elvar Guðmundsson, formaður kkd ÍR undirrituðu samning þess efnis í gær.
Trausti, sem er 23 ára og 197 cm framherji, lék með Skallagrími á síðustu leiktíð og spilaði þar 11 leiki og var í byrjunarliðinu í fjórum þeirra. Hann skoraði að meðaltali 3,8 stig og tók 4,1 frákast í leik með Sköllunum á síðustu leiktíð.
"Ég er rosalega spenntur fyrir því að vera fara spila í Breiðholtinu," sagði Trausti í stuttu spjalli við Karfan.is. "Hrikalega erfið ákvörðun þó að yfirgefa Borgarnes en ég var að fara flytja til Reykjavíkur og ákvað að breyta til í leiðinni. Það hefur alltaf verið flott stemming í kringum ÍR liðið seinustu ár þrátt fyrir kannski að árangurinn í deildinni hefði mátt vera betri en við stefnum að því að bæta úr því í vetur!
Strákarnir hafa líka verið að gefa mér ráð hvernig best sé að haga sér í Breiðholtinu svo allt gangi sem best þannig að ég kemst vonandi fljótt inn í hlutina hérna."
Aðspurður hvort hann væri ekki feginn að vera með Ghetto Hooligans á sínu bandi næsta vetur sagði Trausti: "Það getur ekki verið slæmt að hafa heilt gengi af hooligans á sínu bandi. Þeir eiga samt hrós skilið fyrir að hafa búið til hörku stemmingu á þeim leikjum sem ég sá hjá ÍR í fyrra og vonandi halda þeir því áfram. Ég hef hingað til alltaf verið á því að Fjósamenn séu flottasta stuðningsmannasveit landsins en vonandi tekst 'Hooligönunum' að breyta því áliti hjá mér í vetur."