Penninn fór á loft í Grindavík í dag þegar Íris Sverrisdóttir samdi aftur um að spila fyrir uppeldisfélagið sitt. Þar að auki gekk Daníel Guðni Guðmundsson frá samningi við félagið auk þriggja annarra leikmanna í kvennaliði Grindavíkur.
Íris lék síðast með Haukum í úrvalsdeild á leiktíðinni 2013-2014 en tók sé frí frá boltanum á síðustu leiktíð þegar hún bar barn undir belti. Hjá Haukum skoraði hún tæplega 5 stig í leik og tók um rúmlega 2 fráköst. Hún kom næst á eftir Lele Hardy í skoruðum þriggja stiga körfum á leiktíðnni með 38 í 30 leikjum. Íris samdi til næstu tveggja ára við félagið.
Einnig gekk Daníel Guðni Guðmundsson frá tveggja ára samningi við Grindavík en hann verður ekki aðeins leikmaður karlaliðs félagsins heldur tekur hann einnig við þjálfun kvennaliðsins á næstu leiktíð.
Þrír leikmenn kvennaliðs Grindavíkur gengu þar að auki frá tveggja ára samningi við félagið en það eru Hrund Skúladóttir, Jeanne Sicat og Halla Garðarsdóttir.
Mynd: Kkd. Grindavíkur.