spot_img
HomeFréttirTveir sigrar í tveimur leikjum hjá U16 kvenna á EM

Tveir sigrar í tveimur leikjum hjá U16 kvenna á EM

U16 landslið kvenna hefur staðið sig vel á Evrópumóti C-deildar í Andorra í vikunni. Liðið hefur sigrað bæði Andorra og Möltu með samtals 98 stiga mun.

 

Andrea Einarsdóttir leiddi íslenska liðið í leiknum gegn Andorra með 15 stig og kom Dagbjört Karlsdóttir þétt á eftir með 14, en allir leikmenn liðsins komust á blað í leiknum. Ísland sigraði 37-69.

 

Íslenska liðið er duglegt að dreifa stigaskorun meðal leikmanna sinna því Katla Rún Garðarsdóttir leiddi liðið í leiknum gegn Möltu með 14 stig og 11 fráköst. Ísland sigraði þann leik 97-31.

 

Þóranna Kika Hodge-Karr hefur spilar afburðavel fyrir íslenska liðið þó hún hafi ekki verið að leiða það í stigaskorun. Hún er með flestar stoðsendingar allra leikmanna á mótinu með 4,5 í leik; hún er fjórða í heildarfráköstum með 14; fimmta í sóknarfráköstum með 5 og önnur í varnarfráköstum með 9. Aðeins tveir leikmenn á mótinu hafa náð tvöfaldri tvennu og er Þóranna önnur þeirra. 

 

Fleiri leikmenn hafa verið að standa sig vel á mótinu en Jónína Þórdís Karlsdóttir er þriðji stigahæsti leikmaðurinn á mótinu með 11 stig að meðaltali í leik. Andrea Einarsdóttir er með þriðju bestu þriggja stiga nýtinguna með 42,9%. 

 

Hægt er að skoða tölfræði mótsins á vefsíðu FIBA Europe.

 

Mynd: Þóranna Kika Hodge-Karr hefur spilað afburðavel fyrir íslenska liðið á mótinu. (Davíð Eldur)

Fréttir
- Auglýsing -