Armenía var ekki mikið fyrirstaða fyrir stúlkurnar okkar í U16 landsliði kvenna í úrslitaleiknum á EM C-deildar. Ísland gjörsigraði leikinn með 37 stigum. Þær eru því Evrópumeistarar í C-deild kvenna U16.
Þær armensku náðu að hanga í íslensku stúlkunum fyrstu 20 mínútur leiksins en aðeins munaði 9 stigum á liðunum í hálfleik, 24-33. Íslenska liðið hélt hins vegar því armenska stigalausu fyrstu 7 mínútur þriðja fjórðungs og jók muninn jafnt og þétt á meðan. Armenía skoraði aðeins 15 stig í seinni hálfleik, stórsigur Íslands staðreynd og Evrópumeistaratitill í höfn.
Dagbjört Karlsdóttir leiddi íslenska liðið með 16 stig en fast á eftir henni kom Katla Garðarsdóttir með 15.
Íslenska liðið leiddi mótið í öllum helstu tölfræðiþáttum eða stigum, fráköstum, stoðsendingum og stigum andstæðinga. Þær sigruðu andstæðinga sína með að meðaltali 50,2 stiga mun. Verðugir Evrópumeistarar þar á ferð. Til hamingju U16 stúlkur!
Mynd: Katla Garðarsdóttir lauk leik með 15 stig, 5 fráköst og 4 stogsendingar. (Davíð Eldur)