spot_img
HomeFréttirAcox: Gengur ekkert að hoppa inn korter í mót

Acox: Gengur ekkert að hoppa inn korter í mót

Í gær varð það ljóst að Kristófer Acox myndi ekki geta tekið þátt í Evrópumótinu í september með landsliðinu. Þetta staðfesti Kristófer í samtali við Karfan.is í gær. Allt var reynt og allar leiðir kannaðar til þess að gera þetta að veruleika en niðurstaðan varð því miður þessi.

 

"Það er auðvitað fúlt að missa af þessu. Ég vissi að það væri lítil von um að komast en bæði skólinn og liðið reyndu allt hvað þau gátu til að láta þetta ganga upp. Ég er mjög þakklátur fyrir það og vona bara að það verði fleiri svona tækifæri fyrir mig í framtíðinni."

 

Skólinn í suðurríkjum Bandaríkjanna hefst mun fyrr en annars staðar þar í landi, segir Kristófer. Tæki hann fullan þátt í undirbúningnum og mótinu sjálfu myndi hann missa af 2-3 vikum af kennslu í upphafi haustannar. Skólinn var tilbúinn að gefa honum leyfi í þá viku sem mótið stendur yfir en þá þyrfti hann að æfa og undirbúa sig í Suður-Karolínu á meðan liðið æfir saman hér á Íslandi. 

 

"Það gengur bara ekkert upp og er ósanngjarnt gagnvart KKÍ og hinum í liðinu. Maður verður að taka fullan þátt í undirbúningi fyrir svona stórt mót. Ekki bara hoppa inn korter í mót."

 

Kristófer er á körfuboltastyrk hjá Furman háskólanum í Suður-Karolínu, Bandaríkjunum en hann átti frábært tímabil með liðinu síðastliðinn vetur, sem fór alla leið í úrslit SoCon deildarkeppninnar með Kristófer í broddi fylkingar.  Hann tók einnig þátt í leikjum íslenska landsliðsins á Smáþjóðaleikunum í Reykjavík í júní síðastliðnum og átti frábæra leiki þar.

 

Fréttir
- Auglýsing -