Íslenska liðið tapaði naumlega fyrir því þýska í opnunarleik Eurobasket 2015 hér í Berlín í gær. Eftir slaka byrjun unnu strákarnir hins vegar seinni hálfleikinn 30-39 eftir tvo spretti í fjórða hluta sem Þjóðverjar gátu ekki svarað, 0-9 og svo 0-7. Munurinn varð minnstur 6 stig þegar tæpar 3 mínútur voru eftir af leiknum.
Varnarlega hélt íslenska liðið í við það þýska framan af en sóknarleikurinn var ekki að ganga upp. Nýting Íslands í fyrri hálfleik var 28,1% eða 9/32 – þar af 4/15 í þristum. Ísland skoraði aðeins 0,56 stig per sókn í 2. hluta. Sóknarnýting liðsins var aðeins 29,8% í fyrri hálfleik.
Í seinni hálfleik virtist titringurinn hrokkinn af okkar mönnum því allt annað var uppi á teningnum í seinni hálfleik. Þrátt fyrir að hitta ekki úr einu skoti utan þriggja stiga línunnar í 3. hluta, hittu strákarnir mjög vel þar fyrir innan með 7/12.
Leikur íslenska liðsins var á öðrum stalli í 4. hluta þar sem Þjóðverjunum var haldið í 0,67 stigum per sókn og aðeins 5/13 í skotum. Þeir töpuðu 5 boltum í 4. hluta og sóknarnýting þeirra aðeins 35,7%. Sóknarleikurinn var heldur ekki af verri endanum en íslenska liðið skaut 7/14 í 4. hluta og þar af 3/6 í þristum. Íslensku strákarnir unnu frákastabaráttuna 8-10 í lokafjórðungnum. Ísland skoraði 1,18 stig per sókn og var sóknarnýting liðsins 54,3% með 60,7% eFG%.
Liðin hérna í Berlín eru greinilega vakandi fyrir þriggja stiga ógn Íslands því Chris Flemming, þjálfari Þýskalands tók það fram á blaðamannafundi að hann hafi verið ánægður með að ná að halda Íslandi undir 30% í þriggja stiga skotum í leiknum.
Vítanýting íslenska liðsins var ekki góð eða 12/22 (54,5%) og þarf að gera betur þar í hinum leikjunum.
Jón Arnór Stefánsson skoraði 23 stig í leiknum og stoðsendingar hans skiluðu öðrum 13. Hann átti þar með beinan þátt í 55,4% stiga íslenska liðsins. Jón skoraði 0,99 stig per sókn á móti 0,90 frá Dirk Nowitzki. Skilvirkni Jóns var til fyrirmyndar með 48,4% sóknarnýtingu og 47,4% eFG%.
Miðherjinn okkar knái Hlynur Bæringsson hitti ekki úr einu skoti innan þriggja stiga línunnar en var hins vegar sjóðheitur þar fyrir utan með 4/7 nýtingu. Hann skoraði 1,01 stig per sókn og skotnýtingin í leiknum hjá honum var 54,5% eFG%. Hlynur bætti við 8 fráköstum, þar af 2 sóknarfráköst sem skiluðu inn 4 stigum fyrir Ísland.