spot_img
HomeFréttirSerbía lagði Þýskaland í háspennuleik

Serbía lagði Þýskaland í háspennuleik

Serbía og Þýskaland mættust í fyrsta leik á öðrum degi Eurobasket 2015 í Berlín og var fyrirfram útlit fyrir ójafnan leik. Önnur var hins vegar raunin þar sem sóknarleikur Þjóðverja gekk allur upp framan af, ólíkt andstæðingum þeirra frá Serbíu.

 

Serbar hittu skelfilega fyrir utan þriggja stiga línuna eða 4/30 eða 13,3% en skotin fóru ekki að detta niður hjá þeim fyrr en í 4. hluta.

 

Þýskaland hafði náð mest 7 stiga mun á fyrstu 30 mínútunum en sóknarfráköst Serbíu hélt þeim inni í leiknum en Serbar tóku 14 sóknarfráköst í leiknum á móti 6 frá Þýskalandi.

 

4. hluti var æsispennandi og jafn allt þar til á síðustu mínútunni. Heiko Schaffartzik setti niður þrist til að jafna leikinn þegar 23 sekúndur voru eftir af leiknum. Serbar stilltu upp eftir leikhlé en fínn varnarleikur og strategísk brot Þýskalands á andstæðingunum settu skipulagið úr skorðum.

 

Djordjevic, þjálfari Serba neyddist til að taka enn einn leikhléið. Úr því varð kerfi sem skilaði Minnesota Timberwolves leikmanninum Nemanja Bjelica í gott flotskot frá hægri hliðinni sem hann setti niður. Serbía tryggði sér 2 stiga sigur á Þjóðverjum 68-66. 

 

Bjelica var stigahæstur Serbanna með 12 stig en enginn annar leikmaður liðsins komst yfir 10 stigin. Dirk Nowitzki og Tibor Pleiß voru stigahæstir með 15 stig fyrir Þýskaland. Pleiß þessi samdi við NBA liðið Utah Jazz í sumar.

 

 

Mynd:  Serbinn Milos Teodosic í leiknum gegn Þýskalandi (Skúli Sig)

Fréttir
- Auglýsing -