spot_img
HomeFréttirPianigiani: Ísland var á heimavelli í kvöld

Pianigiani: Ísland var á heimavelli í kvöld

Simone Pianigiani, þjálfari ítalska landsliðsins sagði á blaðamannafundi eftir leikinn í dag að íslenska liðið hafi sýnt að það á heima á svona stórum mótum.

 

"Þetta var mikilvægur leikur fyrir okkur sem mátti ekki tapa. Ísland spilar óhefðbundinn körfubolta sem erfitt er að verjast." Hann sagði þriggja stiga skot íslenska liðsins og stöðugar árásir á körfuna hafi gert þeim lífið leitt.

 

"Íslendingum er alvara. Þeir eru ekkert að grínast á þessu móti. Það sást best á móti Þýskalandi í gær þar sem það munaði mjög litlu fyrir þá. Náðu tvisvar að minnka muninn niður fyrir 10 stig en brenndu af opnum skotum í lokin. Í dag var sóknarleikur þeirra enn betri og þeir voru að hitta úr erfiðum skotum."

 

Pianigiani bætti við að stuðningsmenn íslenska liðsins hafi verið þeirra sjötti maður á vellinum. "Þeir voru ekki á útivelli í dag. Þeir voru dálítið mikið á heimavelli í þessum leik."

 

Lágvaxið lið Íslands olli Pianigiani og einum NBA leikmanni liðsins höfuðverk á meðan á leik stóð. Þjálfarinn sagðist hafa þurft að takmarka leiktíma hans vegna þessa. "Ég get ekki látið [Andrea] Bargnani spila svona mikið á móti svona lágvöxnum leikmönnum, en hann átti ágætis spretti í leiknum þrátt fyrir það."

 

Mynd: Simone Pianigiani (Panorama.it)

Fréttir
- Auglýsing -