Sergio Scariolo, þjálfari spænska landsliðsins var feginn að þessi leikur var búinn og hann var einnig feginn að ná að hvíla lykilleikmenn fyrir átökin gegn Dirk Nowitzki og félögum í þýska liðinu á morgun. Sergio vissi að þetta yrði erfitt match-up fyrir Spán og mikilvægt að loka honum fljótt.
Það hins vegar gerðist ekki. Íslenska liðið stóð í þeim lengst af í fyrri hálfleik og var yfir á tímabili. "Við áttum erfitt með þá í fyrri hálfleik en sérstaklega í öðrum fjórðung því við byrjuðum mjög vel. Við komum einbeittir til baka úr hálfleik og náðum að komast lengra frá þeim."
Aðspurðu hvort frammistaða íslenska liðsins hafi komið fólki á óvart svaraði Scariolo: "Þeir eiga skilið virðingu allra, í sannleika sagt." Hann hrósaði "óhefðbundnum en jafnframt áhugaverðum" körfubolta íslenska liðsins. "Þeir hafa fangað athygli allra á þessu móti og hafa náð að halda flestum leikjum þeirra jöfnum þar til loka leiks. Hefur eflaust komið mörgum á óvart þar sem liðið var óþekkt áður en það kom hingað. Það var hins vegar augljóst frá upphafi að þeir ætluðu að taka þátt í þessu móti – strax í leiknum gegn Þýskalandi. Ég vil bara óska þeim til hamingju með árangurinn. Þeir hafa sannað að þeir eigi heima hérna."