Hattarmenn fengu Fjölni í heimsókn í Íþróttahúsið á Egilsstöðum í kvöld. Þetta var fyrsti leikur Hattar í Fyrirtækjabikarnum í ár, en Fjölnismenn voru fyrir þennan leik búnir að spila gegn Þór frá Akureyri og endaði sá leikur með sigri Fjölnismanna.
Höttur byrjaði leikinn af krafti og voru komnir í 12:3 snemma í 1.leikhluta. Fjölnismenn bitu þó frá sér og minnkuðu muninn hægt og sígandi en staðan eftir leikhlutann var 23:20, Hetti í vil eftir að Sigmar Hákonarson hafði lokað leikhlutanum með fallegri þriggja stiga körfu.
Annar leikhluti fór af stað með látum. Sigmar hélt uppteknum hætti og skoraði fyrstu fimm stig leikhlutans. Í framhaldi af því skoruðu liðin sitt á hvað í annars mjög tíðindalitlum leikhluta og Höttur leiddi í hálfleik; 48-38.
Fjölnismenn komu eins og grenjandi ljón til leiks í síðari hálfleik og til marks um það voru þeir komnir með þrjár villur eftir aðeins tveggja mínútna leik. Þeir áttu í þónokkrum vandræðum með Helga Björn Einarsson í teignum ásamt því að Tobin Carberry var alltaf hættulegur í sínum aðgerðum hjá Hattarmönnum. Um miðbik leikhlutans hrökk Bergþór Ríkharðsson í gang og leiddi áhlaup Fjölnis sem voru skyndilega búnir að minnka muninn í 56-52. Þá var Viðari Hafsteinssyni, þjálfara heimamanna, nóg boðið og tók leikhlé. Í kjölfarið settu Tobin og Eysteinn Bjarni sinn þristinn hvor og Höttur jók forskotið smám saman, staðan eftir 3.leikhluta 72-57 Hattarmönnum til góða.
Höttur byrjaði svo 4.leikhlutann gríðarlega vel og skora snemma ásamt því að Eysteinn fiskar óíþróttamannslega villu á Egil Egilsson, þegar sá síðarnefndi ætlaði að fá far hjá Eysteini til baka í vörnina eftir að Eysteinn komst inn í sendingu ætlaða honum. Eftir þetta settu Hattarmenn í hinn margrómaða fluggír og náðu 15-0 „rönni“ og staðan orðin 87-57. Við þetta vöknuðu Fjölnismenn loksins af værum blundi og komu með skemmtilegt áhlaup til baka og voru búnir að minnka muninn í 91-79 þegar skammt var eftir. Hallmar Hallsson ákvað að taka þá til sinna ráða og slökkva í vonarneista Fjölnismanna með rándýrum þrist og það hefði ekki mátt heyra flygil detta í stúkunni þegar boltinn fór ofan í körfuna, slík voru fagnaðarlæti heimamanna. Tobin og Ásmundur Hrafn enduðu svo leikinn á skemmtilegu samspili þar sem sá síðarnefndi varpaði einni „alley-oop“ sendingu á Tobin sem kláraði með glæsibrag. Lokatölur leiksins 96-79 fyrir heimamenn.
Síðari hálfleikurinn töluvert betri af hálfu beggja liða en þó var hann mjög kaflaskiptur. Fjölnismenn eiga hrós skilið að koma til baka úr stöðunni 87-57 og minnka muninn niður í 12 stig þegar skammt var eftir. Fjölnismenn klárlega líklegir til að stoppa stutt við í 1.deildinni og fara beint upp aftur eftir að hafa fallið í fyrra. Hattarmenn verða hins vegar að líta sér nærri og klára leikina betur ef þeir ætla að vera samkeppnishæfir í úrvalsdeildinni í vetur.
Atkvæðamestir í liði Hattar voru Tobin Carberry með 35 stig, Helgi Björn með 16 stig auk 10 frákasta, og síðast en ekki síst Sigmar Hákonarson sem endaði leikinn með 13 stig og 4 stoðsendingar ásamt því að stjórna sóknarleik Hattar af stakri snilld á köflum.
Hjá Fjölnismönnum voru það Collin Pryor með 17 stig og 8 fráköst, Bergþór með 15 stig, Sindri Kárason með 14 stig og Egill Egilsson með 13 stig og 9 fráköst.
Texti: Jónas Ástþór