spot_img
HomeFréttirSpánverjar Evrópumeistarar í körfubolta 2015

Spánverjar Evrópumeistarar í körfubolta 2015

Spánverjar tryggðu sér þriðja Evrópumeistaratitil sinn í síðustu fjórum keppnum fyrir framan metfjölda í íþróttahöllinni í Lille eða yfir 27 þúsund manns. Sigur Spánar var aldrei í hættu en Spánverjar leiddu alveg frá fyrstu mínútu en sigurinn var fremur öruggur, 80-63. 

 

Litháar sáu aldrei til sólar. Varnarleikur Spánar var einfaldlega allt of sterkur, en Litháum var haldið í 35,4% skotnýtingu í leiknum. Helsta stjarna Litháa, Jonas Valanciunas lenti snemma í villuvandræðum og gat lítið spilað með en svo fór að lokum að hann endaði með 5 villur eftir aðeins 26 mínútur af leiktíma.

 

Pau Gasol leiddi sem fyrr sína menn með 25 stig og 12 fráköst en stighæstir hjá Litháum voru Mantas Kalnietis og Renaldas Seibutis með 13 stig hvor.

 

Skal engan undra að besti maður mótsins var valinn Pau Gasol sem spilað hefur frábærlega í mótinu þrátt fyrir meiðsl. Ásamt Gasol voru Sergio Rodriguez, Jonas Valanciunas, Nando De Colo og Jonas Maciulis valdir í lið mótsins.

 

 

Mynd: Spánverjar fagna þriðja Evrópumeistaratitli sínum í fjórum keppnum (FIBA)

Fréttir
- Auglýsing -