spot_img
HomeFréttirUndir 18 ára stúlkur tryggðu sig í 8 liða úrslit Evrópumótsins -...

Undir 18 ára stúlkur tryggðu sig í 8 liða úrslit Evrópumótsins – Unnu þriðja leikinn í röð í dag

U18 lið kvenna mætti Makedóníu í leik þrjú á Evrópumótinu í Búlgaríu í kvöld. Gengi liðanna framað þessu var mjög ólíkt. Ísland hafði unnið báða sína leiki, gegn Danmörku og Hollandi. Makedónía tapaði fyrsta leik gegn Hollandi en sat hjá í riðlinum í gær.

Gangur leiksins

Það var ljóst eftir leik Króatíu og Hollands fyrr í dag að það nægði okkar stelpum að vinna Makedóníu til að tryggja sig í 8 liða úrslit mótsins. Það sást í upphafi leiks að þær áttuðu sig á stöðunni. Stelpurnar komu aðeins taugatrektar til leiks sóknarlega. Vörnin sem þær hafa spilað á mótinu var þó til staðar og hélt okkur í forystu. Í öðrum leikhluta fór sóknin að virka betur og vörnin varð enn betri. Staðan í hálfleik var 31 – 45 Íslandi í vil.

Stelpurnar komu vel stemmdar inn í seinni hálfleikinn. Þær spiluðu sem heild sóknarlega. Allar vel tengdar og þorðu að vera með. Það skipti ekki máli hver kom inn á völlinn, allar lögðu sín lóð á vogaskálarnar og uppskáru sterkan 18 stiga sigur. Það var þó ljóst á leik liðsins að þær gerðu bara það sem nægði til að vinna þennan leik því íslenska liðið er mun betra lið en það makedónska.

Breiddin í íslenska liðinu er mikil sem sést best á því að byrjunarliðið skoraði 41 stig og bekkurinn 36 stig.

8 liða úrslit er frábær árangur hjá liðinu enda er þetta í 3. skipti í sögunni sem U18 lið kvenna nær þetta langt í Evrópukeppni.

Áður höfðu þessi lið komist í 8 liða úrslit:

U18 2016 4. sæti

U18 2005 8. sæti

(Ábyrgustu tölfræðimola allra tíma fær maður hjá Rúnari Birgi Gíslasyni).

Restina af mótinu fá þær svo að bera sig saman við mjög góð lið og verður gaman að fylgjast með því.

Atkvæðamestar í liði Íslands voru Anna María með 20 stig og 4 fráköst, Agnes 15 stig og Sara Líf með 9 stig.

Riðillinn sem Ísland er í á frí á morgun, mánudag, og á þriðjudaginn sitja þær hjá. Stelpurnar fá því 2 daga til að hvíla sig fyrir lokaleik riðilsins gegn Króatíu sem er á miðvikudaginn 5. júlí kl 10:00 á íslenskum tíma. Það er hreinn úrslitaleikur um 1. sætið í riðlinum og hvetjum við alla til að fylgjast með. ÁFRAM ÍSLAND!




Tölfræði leiks


Umfjöllun, viðtöl / Hákon Hjartarson

Fréttir
- Auglýsing -