spot_img
HomeFréttirSlakir Grindvíkingar sluppu frá Iðu með sigurinn í farteskinu

Slakir Grindvíkingar sluppu frá Iðu með sigurinn í farteskinu

Margir telja FSu hafa alla tilburði til að vera Spútníklið deildarinnar í vetur með spræka stráka sem spila hratt og erfiðan heimavöll þar sem vel er mætt. Undirritaður hefur komið sér kyrfilega fyrir á þessum vagni líka. FSu menn ollu heldur ekki vonbrigðum í kvöld í sínum fyrsta leik í úrvalsdeild eftir nokkurra ára útlegð.

 

Heimamenn komu sjóðandi til leiks, neglandi þristum út um allt eins og þeir eru vanir þarna í Iðu, með Ara Gylfason í broddi fylkingar. Grindvíkingar áttu engin svör og hittu illa sjálfir.  Í hálfleik hafði Ari Gylfason skorað 16 stig og FSu 6 stigum yfir, 51-45.

 

Grindvíkingar komu beittari til leiks í seinni hálfleik en heimamenn voru ekkert á því að gefa undan. Þegar komið var í fjórða og síðast leikhlutann fór reynslan hjá Grindvíkingum að telja. Varnarleikur gestanna hertist og FSu tapaði 8 boltum í fjórða hluta af 15 boltum í öllum leiknum. Grindvíkingar náðu að éta upp muninn mjög hratt í upphafi fjórða hluta og komust mest 3 stigum yfir. 

 

Í stöðunni 82-81 fyrir FSu og 2 mínútur eftir af leiknum hætti boltinn að vilja fara ofan í hjá Grindvíkingum. Þeir brenndu af 5 skotum í röð þar til Stálið sjálft, Ómar Sævarson var settur á línuna með 30 sekúndur eftir af leiknum. Ómar, með ísvatn í æðum og ónæmur á öskrin frá áhorfendum, sökkti þeim báðum og þeir gulklæddu aðeins 1 stigi undir. Kæruleysi í sóknarleik FSu varð til þess að Jón Axel Guðmundsson komst í sendingu og fann fyrrnefndan Ómar Sævarsson í kjöraðstöðu til að fleygja boltanum ofan í.  Sem hann gerði og tryggði ekki bara 84-85 sigurinn fyrir Grindavík heldur JAxel sína fyrstu þrennu í Domino's deildinni.

 

Jón Axel átti stórleik og leiddi í stigaskori með 16 stig þrátt fyrir að hitta fremur illa í leiknum. Hann innsiglaði svo þrennuna með 10 fráköstum og 10 stoðsendingum. Stigaskorið var mjög jafnt hjá Grindvíkingum en 6 leikmenn skoruðu 10 stig eða fleiri hjá þeim.

 

Ari Gylfason leiddi FSu með 23 stig, en hann skaut 6/16 í þristum í kvöld. Hafið auga með honum í vetur því hann getur skotið ljósin út þegar hann dettur í gírinn. Chris Caird gældi einnig við þrennuna en hann var með 16 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. 

 

Tölfræði leiks.

Myndasafn (HT)

 

Mynd: Jón Axel Guðmundsson stimplaði sig inn á þrennuvaktina með 16 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar. (HT)

Fréttir
- Auglýsing -