spot_img
HomeFréttirSterkur sigur Tindastóls á Stjörnunni í Síkinu

Sterkur sigur Tindastóls á Stjörnunni í Síkinu

Tindastóll vann gríðarlega sterkan sigur á Stjörnunni á heimavelli sínum í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld.

 

Ljóst var fyrir leikinn að Jerome Hill yrði ekki með Tindastól í kvöld þar sem hann er ekki kominn með leikheimild.  Heimamenn létu það ekkert á sig fá og eðalvínið Darrel Lewis var búinn að koma þeim í 7-0 eftir 2 mínútur áður en Stjörnumenn áttuðu sig á að leikurinn væri hafinn. Þeir jöfnuðu sig þó fljótlega og minnkuðu muninn í 2 stig en góð innkoma frá Svavari Atla og Helga Frey sá til þess að munurinn var sex stig eftir 1. leikhluta, 20-14.

 

Það var gríðarleg barátta í báðum liðum og varnarleikurinn til háborinnar fyrirmyndar, sérstaklega hjá heimamönnum í Tindastól. Helgi Rafn kveikti svo í Síkinu með tröllaleik, stal boltanum og tróð með tilþrifum og kom sínum mönnum 10 stigum yfir 29-19 snemma í leikhlutanum.  Tindastóll var að rúlla á mörgum mönnum allan leikinn og það skilaði sér í því að menn höfðu úthald í gríðarlega sterka varnarvinnu sem hélt Stjörnumönnum í 27 stigum í fyrri hálfleik.  Á meðan höfðu heimamenn nuddað inn aðeins fleiri stigum og í hálfleik var staðan 41-27 fyrir Tindastól og útlitið gott.
 
Tindastóll byrjaði svo seinni hálfleikinn á 10-4 áhlaupi og munurinn var skyndilega orðinn 20 stig, 51-31.  Stjarnan er þó allt of sterkt lið til þess að játa sig sigrað og þeir hertu tökin í vörninni og náðu að naga muninn niður.  Staðan var 60-54 þegar sex og hálf mínúta var eftir og allt opið.  Þá tóku Stólarnir sig saman í andlitinu og Helgi Freyr (2) og Arnþór smelltu þremur risaþristum í röð í andlitið á Stjörnunni og svo gott sem kláruðu verkefnið.  Töluvert var brotið á lokamínútunum en heimamenn sýndu yfirvegun á línunni og settu það niður sem þurfti og fögnuðu vel í lokin.

Tölfræði leiks

 

Texti:  Hjalti Árnason
 
Mynd: Helgi kveikir í Síkinu

Fréttir
- Auglýsing -