Snæfell tók á móti Njarðvíkingum í Stykkishólmi í kvöld. Liðin keyrðu hratt inn í leikinn en boltinn var ekki að detta í netið og menn voru að finna fjalirnar en staðan var 2-7 fyrir Njarðvík eftir góðan þrist frá Loga Gunnarssyni. Fyrstu fimm mínútur leiksins voru stirðar en menn fóru að raða stigum á töfluna eftir það og voru gestirnir frá Njarðvíkum skrefinu framar þar 12-19 þegar um 2 mínútur voru eftir af 1. fjórðung. Staðan var 15-28 fyrir Njarðvík eftir þrjú stig Jóns Arnórs Sverrissonar á flautunni.
Það varð heldur betur breyting á leik Snæfells sem voru undir 22-37 eftir að Maciej og Maequise Simmons óðu um allt í sóknum sínum. Austin Bracey kom öllu af stað með þrist og Sigurður Þorvalds kom inn með tvo að auki og Sherrod Wright bætti við einum þegar staðan varð snarlega 34-37 og Snæfell jafnaði svo 41-41. Staðan í hálfleik var 45-46 og orðið ansi heitt í húsinu. Sherrod Wright var kominn með 15 stig, Austin 10 stig , og Stefán 7 stig og 7 fráköst fyrir Snæfell. Marquise Simmons og Maciej voru með 13 stig hvor og Logi með 10 stig fyrir Njarðvík.
Innkoma Óskars Hjartarsonar og Viktors Alexanderssonar var til fyrirmyndar fyrir Snæfell í lok þriðja hluta en leikurinn var í járnum þó gestirnir hefðu 1-5 stiga forskot. 69-69 var staðan fyrir lokafjórðunginn. Logi Gunnarsson þarf ekkert að sanna fyrir einum né neinum en hans drifkraftur gerði mikið fyrir hans lið og hann ásamt Marquise Simmon og Maciej Baginski leiddu Njarðvík til 11 stiga sigurs 73-84.
Hjá Snæfelli var Sherrod Wright með 24 stig og Austin Bracey 12 stig. Logi Gunnarsson var stigahæstur Njarðvíkur með 23 stig og Marquise Simmons endaði með 21 stig og 14 fráköst.
Símon B Hjaltalín.
Mynd: Logi Gunnarsson skoraði 23 stig í leiknum (Skúli Sig.)